Erlent

Nú sé ekki tíminn til að draga úr fjár­fram­lögum til WHO

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Antonio Guterres hefur gagnrýnt framferði Bandaríkjaforseta án þess þó að nefna hann sérstaklega á nafn.
Antonio Guterres hefur gagnrýnt framferði Bandaríkjaforseta án þess þó að nefna hann sérstaklega á nafn. EPA

„Nú er ekki tíminn til að draga úr fjárframlögum til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.“

Þetta sagði Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í nótt þar sem hann gagnrýnir framferði Bandaríkjaforseta án þess þó að nefna hann sérstaklega á nafn.

Í gærkvöldi tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti að hann hefði stöðvað fjárframlög Bandaríkjanna til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að minnsta kosti tímabundið. Hann sakaði stofnunina um að draga taum Kínverja og um að hafa brugðist grundvallarskyldu sinni.

Þarf að fylkja sér á bakvið WHO

Guterres sagði að það væri hans einlæga sannfæring að heimsbyggðin þyrfti að fylkja sér á bakvið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og styðja við hana, sérstaklega á tímum sem þessum. Hún sé nauðsynleg í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum.

Guterres sagði að á fordæmislausum tímum kórónuveiru hefðu ríki heims lesið mismunandi í sömu staðreyndir og þannig mögulega brugðist við með mismunandi hætti.

Ekki stöðva framlög til mannúðarsamtaka

Hann sagði að þegar við hefðum loksins náð að sigrast á veirunni yrðu ríki heims að líta um öxl til að skilja til fullnustu hvernig veirunni var gert mögulegt að breiðast svona hratt út um heimsbyggðina á skömmum tíma. Lærdómurinn sem hægt verður að draga af því hvernig tekið var á faraldri kórónuveiru verður ómissandi til að unnt sé að kljást við vandamál af svipaðri stærðargráðu sem kunna að dúkka upp í framtíðinni. „En sá tími er ekki kominn,“ sagði Guterres.

Þá benti hann á að nú væri heldur ekki tíminn til að draga úr fjárframlögum til mannúðarsamtaka sem berjast gegn kórónuveirufaraldrinum. Nú sé tími einingar og samstöðu. „Nú er kominn tími til að alþjóðasamfélagið vinni saman að lausnum við kórónuveirunni og katastrófunni sem hún veldur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×