Íslenski boltinn

Júlí-glugginn verður að ágúst-glugganum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Pepsi Max-deild karla á síðasta tímabili.
Úr leik í Pepsi Max-deild karla á síðasta tímabili. vísir/bára

Ákveðið hefur verið að gera tímabundnar breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti vegna þeirra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hefur á tímabilið 2020.

Gerðar hafa verið breytingar á félagaskiptatímabilunum eða félagaskiptagluggunum svokölluðu. Fyrra félagaskiptatímabilið hefst nú 3. júní og lýkur 30. júní. Seinna félagaskiptatímabilið hefst 5. ágúst og lýkur 1. september.

Félagaskiptatímabilið opnar því í tíma áður en keppni í Mjólkurbikarnum hefst og verður opið að minnsta kosti fram yfir fyrstu tvær umferðir í öllum deildum.

Venjulega hefur fyrra félagaskiptatímabilið verið opið frá 22. febrúar til 15. maí og það seinna frá 1. júlí til 30. júlí.

Hinn svokallaði júlígluggi verður því að ágústglugga. Deildarkeppnin verður um það bil hálfnuð þegar seinna félagaskiptatímabilið hefst.

Einnig hefur keppnistímabilið 2020 verið framlengt til 15. nóvember. Venjulega stendur keppnistímabilið frá 1. febrúar til 15. október á ári hverju. Kórónuveirufaraldurinn hefur hins vegar sett hefðbundið mótahald úr skorðum og hefst Íslandsmótið ekki fyrr en í næsta mánuði.

Nánar má lesa um breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti og samninga leikmanna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×