Íslenski boltinn

Hætti að spila fyrir ÍBV til að sýna Elísabetu stuðning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði 207 mörk í 143 leikjum í efstu deild á Íslandi.
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði 207 mörk í 143 leikjum í efstu deild á Íslandi. vísir/baldur hrafnkell

Elísabet Gunnarsdóttir hafði mikil áhrif á feril Margrétar Láru Viðarsdóttur. Hún lék undir stjórn Elísabetar hjá ÍBV, Val og Kristianstad í Svíþjóð.

Margrét Lára var gestur Guðmundar Benediktssonar í Sportinu í kvöld í gær þar sem hún ræddi um samstarfið við Elísabetu. Og hún rifjaði upp þegar hún hætti að spila fyrir ÍBV tímabilið 2002 til stuðnings Elísabetu.

„Það er skemmtilegt að tala um það að ég spilaði bara nokkra leiki þetta sumarið. Og ástæðan fyrir því var að Elísabet var rekin á miðju tímabili,“ sagði Margrét Lára.

„Þá ákvað sextán ára stelpan að hætta að spila með liðinu til að sýna henni stuðning. Eftir á er ég svolítið stolt af mér; hugrakkt af mér, að vera sextán ára og fá svona stórt tækifæri, að sýna þjálfaranum mínum stuðning. Ég var ekki sátt við ákvörðunina. Leikirnir hefðu eflaust orðið fleiri en sextán ára frekjan ákvað að segja stopp þarna.“

Margrét Lára lék ellefu deildarleiki sumarið 2002 og skoraði sjö mörk. Hún fór svo Vals 2005 þar sem hún varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari undir stjórn Elísabetar.

Margrét Lára lék einnig undir stjórn Elísabetar hjá Kristianstad á árunum 2009-11 og 2012-15. Hún varð markahæst í sænsku úrvalsdeildinni tímabilið 2011.

Klippa: Sportið í kvöld - Hætti að spila til að sýna Elísabetu stuðning

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×