Enski boltinn

Klopp segir að Liverpool hafi sýnt Coutinho sanngirni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho með Jürgen Klopp á góðri stundu þegar hann var enn stórstjarna hjá Liverpool.
Philippe Coutinho með Jürgen Klopp á góðri stundu þegar hann var enn stórstjarna hjá Liverpool. Getty/Jan Kruger

Philippe Coutinho sóttist sjálfur eftir því að fara frá Liverpool á sínum tíma og Jürgen Klopp segir að málið hafi komið upp hálfu ári áður en Brasilíumaðurinn var á endanum seldur til Barcelona.

Philippe Coutinho varð að stórstjörnu hjá Liverpool en lét freistast þegar Barcelona bankaði á dyrnar sumarið 2018. Síðan þá hefur ferill Coutinho verið á hraðri niðurleið og það er ljóst að Liverpool vill ekki fá hann til baka.

Barcelona vill hann ekki heldur og Bayern München hefur ekki áhuga á að hafa Coutinho áfram á láni. Mestar líkur eru á því að hann endi í ensku úrvalsdeildinni hjá öðru liði en Liverpool.

Jürgen Klopp, knattspyrnustóri Liverpool, talaði um félagsskipti Philippe Coutinho í viðtali við þýska hlaðvarpsþáttinn Pure Football.

„Ég bar virðingu fyrir skiptum Phil frá fyrstu sekúndu. Mér leið samt eins og þetta gæti orðið erfitt fyrir hann,“ sagði Jürgen Klopp.

„Þetta snerist ekki um að við höfum skrifað undir nýjan samning við hann nokkrum vikum áður heldur vissi ég það að þetta var eini klúbburinn sem hann hefði beðið um að komast til,“ sagði Jürgen Klopp um það þegar Barcelona sýndi Philippe Coutinho áhuga.

„Það kom ekki til greina að láta hann fara um sumarið. Við höfðum þegar misst Adam Lallana í meiðsli og hefðum þá verið að missa tvo leikmenn. Það var ekki möguleiki á að leysa það á leikmannamarkaðnum,“ sagði Jürgen Klopp.

„Hann [Coutinho] sætti sig við að spila áfram með okkur sem var flott. Það þýddi líka að við yrðum að vera sanngjarnir við hann í janúarglugganum,“ sagði Jürgen Klopp.

„Við vorum líka sanngjarnir við hann. Við vorum ekki ánægðir með það að missa hann en við létum þetta eftir honum,“ sagði Jürgen Klopp.

„Phil var okkar strákur í langan tíma. Við berum mikla virðingu fyrir honum og óskum honum alls hins besta. Þannig á fótboltinn að vera. Það sem er mikilvægast er hvernig klúbburinn sýndi honum það á sínum tíma,“ sagði Jürgen Klopp.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.