Erlent

Tígrís­dýr í Bronx-dýra­garðinum greindist með kórónu­veiru

Atli Ísleifsson skrifar
Tígrisdýr í dýragarðinum í Bronx.
Tígrisdýr í dýragarðinum í Bronx. Bronx Zoo

Fjögurra ára tígrísdýr í dýragarðinum í Bronx í New York í Bandaríkjunum hefur greinst með kórónuveirusmit.

BBC segir frá því að um sé að ræða fyrsta þekkta kórónuveirusmitið hjá dýri í Bandaríkjunum. Tígrísdýrið sem um ræðir er kvendýr, ber nafnið Nadia og er af tegundinni malasískt tígrisdýr.

Í yfirlýsingu frá dýragarðinum segir að Dýrarannsóknarstofa Bandaríkjanna í Iowa hafi staðfest að um jákvætt sýni hafi verið að ræða. Talið er að Nadia, auk sex annarra kattardýra, hafi smitast af smituðum starfsmanni dýragarðsins sem sjálfur hafi reynst einkennalaus.

Kattardýrin byrjuðu að sýna einkenni smits í lok síðasta mánaðar, þar með talið þurran hósta. Þá hafi matarlyst dýranna verið minni að undanförnu en vanalega.

Áður hafa borist fréttir af því að gæludýr hafi greinst með kórónuveirusmit annars staðar í heiminum.

Í yfirlýsingu frá dýragarðinum segir enn fremur að búist sé við að Nadia og hin smituðu kattardýrin muni ná sér að fullu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.