Erlent

Binda vonir við blóðvökva úr fólki sem hefur náð sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Læknirinn Kong Yuefeng, sem náði sér af Covid-19, gefur hér blóðvökva í Wuhan í Kína.
Læknirinn Kong Yuefeng, sem náði sér af Covid-19, gefur hér blóðvökva í Wuhan í Kína. Vísir/AP

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, FDA, lýsti í gær yfir stuðningi við tilraunir til að þróa meðferð gegn Covid-19 með blóðvökva sjúklinga sem hafa náð sér af sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur. 50 bandarísk sjúkrahús og háskólar vinna að þróun slíkrar meðferðar og var opnuð vefsíða vegna verkefnisins í gær.

Hugmyndin er tiltölulega einföld og hefur í raun verið í notkun frá lokum nítjándu aldar. Meðal annars hefur hún verið notuð til meðferðar vegna Fuglaflensu og Ebólu. Í stuttu máli sagt, þá mynda þeir sem ná sér af veirunni mótefni í blóði sínu sem ónæmiskerfi líkamans myndar.

Hægt er að safna því saman úr blóði fólks og gefa öðru fólki sem hefur smitast.

Eins og segir í frétt NPR hafa háttvirtir vísindamenn í Bandaríkjunum kallað eftir því að þessi leið verði rannsökuð betur. Niðurstöður smárrar rannsóknar í Kína gefa í skyn að notkun blóðvökva skili árangri.

Samtök blóðbanka í Bandaríkjunum og Rauði krossinn í Bandaríkjunum koma nú að verkefninu og þá sérstaklega til að finna blóðgjafa og taka úr þeim blóð.

Í útskýringargrein Reuters segir að hvern skammt af blóðvökva sé hægt að gefa, og mögulega hjálpa, þremur til fjórum sjúklingum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×