Erlent

Þúsundir Zoom-funda rata á netið

Samúel Karl Ólason skrifar
Vinsældir forritsins hafa aukist til muna á undanförnum vikum og mánuðum.
Vinsældir forritsins hafa aukist til muna á undanförnum vikum og mánuðum. EPA/MATTIA SEDDA

Hægt er að finna þúsundir myndbanda af samtölum og fundum fólks í gegnum fjarfundaforritið Zoom. Mörg þessara myndbanda innihalda persónuupplýsingar eins og nöfn og símanúmer, eru af einkasamtölum eða innihalda jafnvel nekt, svo eitthvað sé nefnt.

Myndböndin eru upptökur af fundum og samtölum sem eru vistuð á netinu.

Vandann má að miklu leyti rekja til vanþekkingar notenda en einnig til þess að forritið nefnir öll vistuð samtöl sama nafninu svo auðvelt er að finna þau á netinu. Blaðamenn Washington Post hafa horft á þó nokkur myndbönd og hafa starfsmenn Zoom verið látnir vita af vandanum.

Vinsældir forritsins hafa aukist til muna á undanförnum vikum og mánuðum. Í mars voru um 200 milljónir manna að nota forritið á dag en í desember voru um tíu milljónir að nota það í mánuði.

Þessi aukna notkun hefur einnig leitt til þess að öryggissérfræðingar hafa farið að skoða Zoom nánar og hefur fyrirtækið sætt harðri gagnrýni vegna öryggisgalla og fullyrðingar um dulkóðun sem stenst ekki skoðun.

Sjá einnig: Zoom lofar bót og betrun

Blaðamenn Washington Post ræddu við fimm aðila sem komu að myndböndum sem höfðu ratað á netið og höfðu þau ekki hugmynd um hvernig það hafði gerst.

Vandinn snýr að miklu leyti að því hvernig fólkið sjálft vistar myndböndin á netsvæðum sem eru opin en það að Zoom nefni öll vistuð myndbönd með sama nafninu gerir aðilum mjög auðvelt að leita að þeim og jafnvel niðurhala þeim.

Ein leit með ókeypis leitartóli sem finna má á netinu gaf meira en fimmtán þúsund niðurstöður.

Áhugasamir geta fundið góðar leiðbeiningar um hvernig tryggja má öryggi í Zoom hér í grein ArsTechnica.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×