Erlent

Skorað á WHO að útvega Afríku ebólalyf

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bandaríkjamennirnir Þau Kent Brantly og Nancy Writbol hafa bæði verið flutt frá Líberíu á sjúkrahús í Bandaríkjunum, þar sem prófað hefur verið að gefa þeim blóð í lækningaskyni.
Bandaríkjamennirnir Þau Kent Brantly og Nancy Writbol hafa bæði verið flutt frá Líberíu á sjúkrahús í Bandaríkjunum, þar sem prófað hefur verið að gefa þeim blóð í lækningaskyni. Vísir/AFP
Þrír af helstu ebólafræðingum heims skora á Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) að sjá til þess að tilraunalyf sem notuð hafa verið í Bandaríkjunum verði send til Afríku þannig að smitaðir þar fái von um bata.

Þótt lyfin hafi ekki verið fullreynd og óvíst sé bæði um árangur og áhættu af þeim, þá sé þörfin það brýn að einskis eigi að láta ófreistað.

„Stjórnvöld í Afríkuríkjum ættu að fá að taka upplýsta ákvörðun um það hvort þessi efni verði notuð eða ekki – til dæmis til að vernda heilbrigðisstarfsfólk sem er í sérlega mikilli smithættu,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá Peter Piot, sem uppgötvaði ebólaveiruna árið 1976, David Heymann og Jeremy Farrar.

Þeir segja að til séu nokkur mismunandi lyf og bóluefni sem hægt væri að nota til þess að berjast gegn þessum illskeytta sjúkdómi.

Nýjasti faraldurinn hefur orðið 932 manns að bana í fjórum ríkjum vestanverðrar Afríku. Alls hafa 1.711 manns smitast, samkvæmt tölum frá WHO.

Engin lækning hefur verið fundin svo öruggt þyki, en tveir Bandaríkjamenn sem smituðust af veirunni hafa verið fluttir á sjúkrahús í Bandaríkjunum. Þar hafa verið gerðar tilraunir með að gefa þeim blóð úr fólki sem hefur lifað af ebólasmit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×