Íslenski boltinn

29 dagar í Pepsi Max: Enginn skorað meira en Hilmar Árni síðan hann fór til Stjörnunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hilmar Árni er sparkviss með afbrigðum.
Hilmar Árni er sparkviss með afbrigðum. vísir/daníel

Síðan Hilmar Árni Halldórsson gekk í raðir Stjörnunnar frá Leikni R. fyrir tímabilið 2016 hefur enginn skorað fleiri mörk í efstu deild en hann.

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 29 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Í dag ætlum við að skoða tímabil Hilmars Árna Halldórssonar í Stjörnunni en síðan hann gekk í raðir Garðabæjarliðsins hefur hann skorað 46 mörk í Pepsi Max-deildinni, fleiri en nokkur annar. 

Eftir að hafa leikið með Leikni allan sinn feril samdi Hilmar Árni við Stjörnuna fyrir tímabilið 2016. Sumarið á undan hafði hann skorað fjögur mörk í 22 leikjum með Leikni í efstu deild.

Á sínu fyrsta tímabili (2016) með Stjörnunni skoraði Hilmar Árni sjö mörk í 20 deildarleikjum. Sumarið 2017 skoraði hann tíu mörk í 22 deildarleikjum.

Árið 2018 skoraði Hilmar Árni sextán mörk í 22 deildarleikjum og fékk silfurskóinn. Hann skoraði einu marki minna en Patrick Pedersen hjá Val. Aldrei hefur miðjumaður skorað jafn mörg mörk á einu tímabili í efstu deild á Íslandi.

Í fyrra skoraði Hilmar Árni svo þrettán mörk, einu minna en markakóngurinn Gary Martin.

Hilmari Árna vantar tíu mörk til að ná Halldóri Orra Björnssyni sem er markahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild. Halldór Orri gekk aftur í raðir Stjörnunnar í vetur.

Steven Lennon, framherji FH, hefur skorað næstflest mörk í Pepsi Max-deildinni undanfarin fjögur ár, eða 43 mörk. Þrátt fyrir að hafa aðeins spilað eitt heilt tímabil og tvö hálf hefur Pedersen skorað 31 mark.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×