Íslenski boltinn

30 dagar í Pepsi Max: 62 ár síðan að efsta deildin byrjaði síðast í júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson, fyrsti atvinnumaður Íslendinga í knattspyrnu, spilaði opnunarleikirnn þegar Íslandsmótið í knattspyrnu hófst síðan í júnímánuði.
Albert Guðmundsson, fyrsti atvinnumaður Íslendinga í knattspyrnu, spilaði opnunarleikirnn þegar Íslandsmótið í knattspyrnu hófst síðan í júnímánuði. Getty/S&G/PA Images

Það gerðist síðast á sjötta áratug síðustu aldar að Íslandsmótið í knattspyrnu hófst eftir 1. júní.

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 30 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Í dag ætlum við að skoða það hvenær Íslandsmótið í knattspyrnu var síðast sett í júnímánuði líkt og það er gert í ár vegna COVID-19.

Þegar Íslandsmótið var sett á gamla Melavellinum 19. júní 1958 þá hafði Pele ekki enn skorað mark á heimsmeistaramóti, John F. Kennedy var enn bara öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, framtíðar Bítlarnir John Lennon, Paul McCartney og George Harrison voru enn í hljómsveitinni Quarrymen, Ásgeir Ásgeirsson var forseti Íslands og Albert Guðmundsson var enn að spila í íslensku deildinni.

Íslandsmótið 1958 var síðasta tímabilið þar sem var leikin bara einföld umferð en frá og með sumrinu 1959 léku liðin heima og að heiman.

Fyrsti leikurinn sumarið 1958 var á milli Skagamanna og Íþróttabandalags Hafnarfjarðar en Albert Guðmundsson var þarna kominn heim úr atvinnumennsku og var spilandi þjálfari hjá ÍBH.

Þórður Þórðarson, faðir Ólafs og Teits, var í skotskónum í þessum leik og skoraði öll þrjú mörkin í 3-1 sigri ÍA-liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×