Enski boltinn

Hluti leikmanna neitar að mæta til æfinga

Sindri Sverrisson skrifar
Sergio Agüero hefur látið hafa eftir að sér að leikmenn séu hræddir við að snúa aftur til keppni, og ógna þannig öryggi fjölskyldna sinna.
Sergio Agüero hefur látið hafa eftir að sér að leikmenn séu hræddir við að snúa aftur til keppni, og ógna þannig öryggi fjölskyldna sinna. VÍSIR/EPA

Hluti leikmanna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta ætlar sér ekki að mæta til æfinga þegar opnað verður fyrir æfingar í litlum hópum næsta mánudag, eftir æfingabann vegna kórónuveirufaraldursins.

Þetta segir Daily Mail sem fullyrðir að leikmennirnir hafi látið knattspyrnustjóra sína vita af alvarlegum áhyggjum sínum af því að eiga að mæta til æfinga strax. Vonir standa til að hægt verði að byrja keppni í úrvalsdeildinni að nýju í júní.

Nokkur af félögunum í úrvalsdeildinni munu á næstu tveimur sólarhringum halda fjarfundi með leikmönnum til að útskýra fyrir þeim hvernig reynt verði að tryggja öryggi og heilsu þeirra á æfingum og í leikjum. Búast má við því að leikmennirnir láti í sér heyra á þessum fundum en á meðal leikmanna sem hafa lýst yfir efasemdum um að rétt sé að hefja æfingar á næstunni eru Sergio Agüero, Manuel Lanzini og Danny Rose.

Samkvæmt Sky Sports verða leikmenn að skrifa undir sérstaka yfirlýsingu um að þeir samþykki þær öryggisráðstafanir sem félögin ætla að grípa til í viðleitni til að draga úr smithættu, áður en þeir mæta á æfingar.

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, segir það óumflýjanlegt að einhverjir leikmenn muni ekki treysta sér til að snúa aftur að svo stöddu.

„Það er stærsta hindrunin. Leikmennirnir. Úrvalsdeildin þarf að fá leikmennina í lið með sér. Þetta verður mjög erfitt ef það eru margir leikmenn sem vilja ekki byrja að spila aftur. Meirihluta þeirra leikmanna sem ég hef rætt við vill hins vegar snúa aftur. Það verða alltaf 3-4 í hverju liði sem líst ekki á blikuna, og maður verður að sýna því virðingu. Öryggi leikmanna er mikilvægast af öllu, ekki peningarnir eða það hvaða lið fara upp eða niður,“ sagði Carragher.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×