Erlent

Fauci og félagar í sóttkví

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Anthony Fauci, forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna.
Anthony Fauci, forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Dr. Anthony Fauci og tveir aðrir háttsettir meðlimir smitvarnarteymis Hvíta hússins hafa ákveðið að fara í sóttkví eftir að þeir komust í tæri við einstakling sem smitaður var af kórónuveirunni. Þeir munu áfram sinna störfum sínum í fjarvinnu.

Framganga Fauci, helsta sóttvarnarsérfræðings Bandaríkjanna og forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunarinnar þar í landi, hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum á undanförnum vikum. Hann hefur verið tíður gestur á skjám landsmanna þar í landi en nú verður hlé á þar sem Fauci verður í sóttkví næstu tvær vikurnar.

Guardian hefur eftir upplýsingum frá vinnustað Fauci að hann hafi þegar farið í sýnatöku sem hafi leitt í ljós að hann hafi ekki smitast, hann muni reglulega fara í sýnatöku svo fylgjast megi með stöðu hans. Hann mun sinna starfi sínu frá heimili sínu. Þó mun hann fara í Hvíta húsið sé það nauðsynlegt, en til eru vinnulag um hvernig taka skuli á slíku ef þörf krefur

Dr. Robert Redfield, forstöðumaður sóttvarnarmiðstöðvar Bandaríkjanna, er í sömu stöðu og Fauci auk þess sem að yfirmaður Matvælaeftirlits Bandaríkjanna, Stephen Hahn er einnig kominn í sóttkví. Munu þeir einnig áfram sinna störfum sínum og vinna heima. Fréttamiðlar í Bandaríkjunum hafa greint frá þvíð að Hahn hafi komist í tæri við Katie Miller, ráðgjafa Mike Pence varaforseta, en hún greindist með veiruna á dögunum.

Fauci, Redfield og Hahn eru allir sagðir við ágæta heilsu en náið verður fylgst með hvort að veiran muni greinast í einhverjum af þeim.


Tengdar fréttir

Brad Pitt uppfyllti ósk hins bandaríska Þórólfs í SNL

Yfirmaður smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, Dr. Anthony Fauci, sem gegnir sambærilegu hlutverki í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum í Bandaríkjunum og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir gerir hér á landi, er orðin að óvæntri stjörnu í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×