Erlent

Trump segir morðið á skokkaranum unga óhugnanlegt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Ahmaud Arbery.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Ahmaud Arbery. Samsett/getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir morðið á Ahmaud Arbery, svörtum manni sem skotinn var til bana er hann var úti að hlaupa í Georgíríki í febrúar, „óhugnanlegt“. Þá kvaðst hann treysta þeim yfirvöldum sem fara nú með málið.

Saksóknarar í Georgíu ákærðu í dag feðgana Gregory McMichael og Travis McMichael fyrir morðið á Arbery. Haft hefur verið eftir feðgunum í lögregluskýrslu að Arbery, sem var úti að hlaupa umræddan dag í febrúar, hafi svipað til manns sem grunaður var um aðild að innbrotum á svæðinu. Feðgarnir hafi því ákveðið að vopnbúast, stíga upp í bíl og veita Arbery eftirför. Eftirförinni lauk með því að Arbery var skotinn til bana. Hann var óvopnaður.

Feðgarnir báru fyrir sig lögum um borgaralega handtöku og sjálfsvörn og voru hvorki handteknir né ákærðir fyrir aðild að málinu. Myndband, sem sagt er af atvikinu, var loks birt á netinu á þriðjudag. Mikil reiði braust út í Georgíu og víðar í Bandaríkjunum - og í kjölfarið fóru hjólin að snúast hjá yfirvöldum. Embætti ríkislögreglustjóra í Georgíu tók yfir rannsókn málsins og McMichael-feðgarnir voru handteknir.

Trump ræddi málið í sjónvarpsþættinum Fox and Friends í dag og kallaði það „óhugnanlegt“. Þá kvaðst hann fullviss um að yfirvöld færu rétt með rannsókn málsins og sendi fjölskyldu Arbery jafnframt samúðarkveðjur.

„Ég skoðaði mynd af þessum unga manni. Hann var í smóking. […] Hann lítur út fyrir að vera mjög góður, ungur maður,“ sagði Trump.

Þá kvaðst hann hafa horft á myndbandið sem sagt er sýna morðið á Arbery og lýsti því einnig sem „óhugnanlegu“. Inntur eftir viðbrögðum við því að gjörðir feðganna væru ef til vill byggðar á kynþáttafordómum sagði Trump:

„Það að réttlætinu verði framfylgt leysir þann vanda. Aftur, þetta er í höndum ríkisstjórans og ég er viss um að hann breyti rétt. Þetta gæti verið eitthvað sem við sáum ekki á myndbandinu.“

Arbery hefði fagnað 26 ára afmæli sínu í dag, hefði hann lifað. Efnt hefur verið til fjöldafunda vegna málsins í Georgíuríki og Flórída í dag. Þá hefur myllumerkinu #IRunWithMaud, eða #ÉgHleypMeðMaud verið hleypt af stokkunum, þar sem skokkarar um allan heim eru hvattir til að hlaupa 2,23 mílur, eða um 3,6 kílómetra, í minningu um dánardag Arberys, 23. febrúar.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.