Erlent

Basajev deyr í næturárás

Sjamíl Basajev Basajev er talinn hafa verið forsprakki einnar hrikalegustu hryðjuverkaárásar síðustu ára, gíslatökunnar í Beslan.
Sjamíl Basajev Basajev er talinn hafa verið forsprakki einnar hrikalegustu hryðjuverkaárásar síðustu ára, gíslatökunnar í Beslan. MYND/AP

Sjamíl Basajev, uppreisnarleiðtogi frá Tsjetsjeníu, var drepinn í gær í aðgerð rússneskra stjórnvalda, að sögn yfirmanns rússnesku alríkislögreglunnar, Nikolai Patrúsjev.

Patrúsjev tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseta, í beinni sjónvarpsútsendingu, að Basajev hefði verið drepinn í næturáhlaupi aðfaranótt mánudags í sjálfstjórnarhéraðinu Ingúsetíu. Basajev var fjörutíu og eins árs að aldri. Auk hans létust margir aðrir uppreisnarmenn í árásinni.

Pútín kallaði morðið "réttláta hefnd" fyrir árásirnar í september 2004, þegar um þrjátíu tsjetsjenskir byssumenn tóku skóla í bænum Beslan í Norður-Ossetíu herskildi og héldu börnum og kennurum í gíslingu. Gíslatakan endaði í blóðbaði tveimur dögum seinna og 331 óbreyttur borgari lét lífið. Basajev lýsti því yfir í kjölfarið að hann bæri ábyrgð á árásunum.

Rússnesk stjórnvöld töldu að aðskilnaðarsinnar mundu láta til sín taka á fundi G-8 ríkjanna í Pétursborg sem hefst um næstu helgi.

Forseti héraðsstjórnar Tsjetsjeníu, sem studd er af rússneskum stjórnvöldum, sagðist vona að lát Basajevs markaði endalok baráttunnar gegn vígahópum aðskilnaðarsinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×