Erlent

Ferðatakmarkanir koma ekki til greina þrátt fyrir fleiri smit í Evrópu

Kjartan Kjartansson skrifar
Gestir á tískuvikunni í Mílanó mættu sumir með andlitsmaska til leiks af ótta við kórónuveirunnar sem breiðist nú út um Norður-Ítalíu.
Gestir á tískuvikunni í Mílanó mættu sumir með andlitsmaska til leiks af ótta við kórónuveirunnar sem breiðist nú út um Norður-Ítalíu. Vísir/EPA

Ekki verður gripið til takmarkana á ferðalögum fólks innan Schengen-svæðisins vegna kórónuveirunnar þrátt fyrir að hún hafi náð útbreiðslu á Ítalíu, að sögn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ítölsk yfirvöld staðfestu fimmta dauðsfallið af völdum veirunnar þar í dag.

Á þriðja hundrað manns hefur smitast af kórónuveirunni á Ítalíu frá því á föstudag samkvæmt gögnum ítalskra yfirvalda. Langflest smitin hafa greinst í Langbarðalandi og Venetóhéraði á norðanverðri Ítalíu. Skólum, háskólum, söfnum og kvikmyndahúsum hefur verið lokað til að reyna að hefta útbreiðsluna.

Tilkynnt var um tvö dauðsföll til viðbótar á Ítalíu í dag. Í báðum tilfellum var um að ræða karlmenn á níræðisaldri í Langbarðalandi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Framkvæmdastjórn ESB segist undirbúa varaáætlanir vegna veirunnar þrátt fyrir að ferðatakmarkanir komi ekki til greina að svo stöddu. Stella Kyriakides, heilbrigðismálastjóri sambandsins, segir að ferðatakmarkanir verði að vera í samræmi við tilefnið og samhæfðar á meðal ríkjanna. Þær verði einnig að byggjast á vísindalegum rökum.

„Eins og sakir standa hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ekki mælt með því að setja takmarkanir á ferðalög eða viðskipti,“ sagði hún í dag.

Engu að síður vekja smitin á Ítalíu titring í álfunni. Frönsk yfirvöld stöðvuðu þannig farþega rútu sem kom frá Mílanó eftir að grunur vaknaði um að einn þeirra gæti verið smitaður af veirunni. Lögreglumenn strengdu borða í kringum rútuna og fylgdu farþegum á afmarkað svæði á Perrache-rútustöðinni í Lyon. Þeir voru með flensueinkenni voru fluttir á sjúkrahús, að sögn Reuters.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.