Lögmannsréttur Eidsivaþing í Noregi vill að auðjöfrinum Tom Hagen verði sleppt úr gæsluvarðhaldi.
Áfrýjunarrétturinn tók mál hans til umfjöllunar í dag, og var niðurstaðan sú að tveir af þremur dómurum telja ekki nægileg rök og gögn liggja fyrir til að halda Hagen áfram í gæsluvarðhaldi. Hagen hafði áður verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á neðra dómstigi.
Lögregla hefur nú áfrýjað úrskurði lögmannsréttarins sem þýðir að Hagen verður áfram í varðhaldi þar til að Hæstiréttur landsins hefur tekið málið til meðferðar.
Tom Hagen situr nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um morð eða aðild að morði á eiginkonu sinni, Anne-Elisabeth Hagen. Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth frá 31. október 2018.
Málið var fyrst rannsakað sem mannrán, en lögregla telur nú Tom Hagen hafa sviðsett ránið til að villa um fyrir lögreglunni.