Erlent

Kórónuveiran „mesta árás“ á Bandaríkin í sögunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. EPA/SHAWN THEW

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að kórónuveirufaraldurinn sem nú geisar sé versta árás sem Bandaríkin hafi orðið fyrir, verri en árás Japana á Pearl Harbour og verri en árásirnar 11. september 2001.

Forsetinn sagði þetta á fundi með blaðamönnum í Hvíta húsinu í gærkvöldi þar sem hann hélt áfram að gagnrýna Kínverja fyrir hlut þeirra í vandanum. Trump sagði að hægt hefði verið að koma í veg fyrir heimsfaraldur hefðu menn brugðist við á réttan hátt þegar sjúkdómurinn gerði fyrst vart við sig. Veiran fannst fyrst í kínversku borginni Wuhan eins og frægt er orðið.

Aðspurður vildi Trump ekki taka undir að um stríðsyfirlýsingu af hálfu Kínverja væri að ræða, heldur sagði hann að Bandaríkin stæðu í stríði við sjúkdóminn, en ekki Kínverja sjálfa.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, bætti um betur í gær og sagði Kínverja hafa reynt að þagga niður útbreiðsluna og þannig gert faraldurinn enn verri en ella. Hann endurtók fullyrðingar sínar um að veiran hafi að líkindum verið búin til á tilraunastofu, þó svo að sóttvarnalæknir Bandaríkjanna hafi ítrekað reynt að kveða þann orðróm niður. Veiran varð til við náttúrulega þróun í mismunandi dýrum og á uppruna sinn að öllum líkindum í leðurblökum - eins og fræðast má um hér.

Ríflega 1,2 milljónir Bandaríkjamanna hafa smitast af veirunni en engin þjóð hefur orðið jafn illa úti í faraldrinum. Rúmlega 73 þúsund þeirra hafa látið lífið. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×