Erlent

Skutu nýrri eldflaug og nýju geimfari á loft

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá geimskotinu í gær.
Frá geimskotinu í gær. AP/Guo Cheng

Kínverjar skutu nýrri kynslóð eldflauga á loft í fyrsta sinni í gær. Þessi eldflaug á að bera menn og nýja geimstöð á braut um jörðu, sem og geimför til mars. Eldflaugin bar einnig nýja tegund geimfars sem Kínverjar hafa þróað. Hin nýja Long March 5B byggir á Long March 5, sem skotið var á loft í fyrsta sinn í fyrra, eftir langt þróunarferli og ýmis vandræði.

LM5B er er öflugasta eldflaug Kína og getur flutt um það bil 25 tonn út í geim og meðal annars stendur til að nota hana til að ferja nýja geimstöð á braut um jörðu, sem Kínverjar vilja taka í notkun fyrir lok 2022.

Geimfarið nýja mun vera á braut um jörðu í ákveðin tíma og munu vísindamenn Geimvísindastofnunar Kína safna upplýsingum um geimfarið og hvernig það stendur sig. Samkvæmt tilkynningu frá China Aerospace Science and Technology Corporation, sem er ríkisfyrirtæki sem sinni verktakastörfum fyrir Geimvísindastofnun Kína, getur geimfarið borið sex til sjö geimfara.

Shenzhou geimfarið, sem Kínverjar notast við í dag, getur borið þrjá.

Til stendur að skjóta ellefu svona eldflaugum á loft á næstunni en svo margar geimferðir þarf til að setja saman geimstöðina sem Kínverjar hafa þróað, samkvæmt Space.com.

Kína hefur áður sent tvær rannsóknarstöðvar út í geim, Tiangong-1 árið 2011 og Tiangong-2 árið 2016. Ríkið hefur ekki skotið mönnum út í geim frá 2016.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×