Erlent

Biðst afsökunar á umdeildum ummælum um ásakendur Michael Jackson

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Barbra Streisand.
Barbra Streisand. Getty/Kevin Winter
Söng- og leikkonan Barbra Streisand hefur beðist afsökunar á umdeildum ummælum sem hún lét falla um Wade Robson og James Safechuck í viðtali við breska blaðið The Times í síðustu viku.

Robson og Safechuck stigu fram í heimildarmynd um Jackson þar sem þeir sökuðu hina látnu poppstjörnu um kynferðislega misnotkun. Röktu þeir brotin í miklum smáatriðum. Í viðtalinu var Streisand spurð um þetta mál, í ljósi þess að hún þekkti Jackson.

Vöktu ummæli hennar talsverða athygli og nokkurra fordæmingu á samfélagsmiðlum en Streisand virtist gera lítið reynslu Safechuck og Robson með því að gefa í skyn að reynsla þeirra af Jackson hefði ekki haft teljandi áhrif á líf þeirra, þeir hefðu jú gifst og eignast börn.

„Þannig að þetta drap þá ekki,“ var meðal þess sem Streisand sagði í viðtalinu.

Í gær gaf Streisand út afsökunarbeiðni vegna ummæla sinna og á Instagram sagðist hún ekki hafa valið orð sín nægjanlega gaumgæfilega.

 
 
 
View this post on Instagram
A post shared by Barbra Streisand (@barbrastreisand) on Mar 23, 2019 at 1:57pm PDT

„Ég biðst innilegrar afsökunar ef ég hef valdið sársauka og misskilningi með því að velja orð mín um Michael Jackson og fórnarlömb hans ekki nægjanlega gaumgæfilega vegna þess að orðin sem voru birt endurspegla ekki það sem mér finnst,“ skrifaði Streisand.

„Ég ætlaði mér ekki að gera lítið úr því áfalli sem þessir drengir urðu fyrir á neinn hátt. Líkt og öll fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis þurfa þeir að lifa með því til æviloka. Ég sé mjög eftir þessu og vona að James og Wade viti að ég virði þá og dáist að þeim fyrir að segja sannleikann,“ skrifaði Streisand.

Þá gaf hún einnig út yfirlýsingu vegna málsins sem birtist á vef Variety þar sem meðal annars segir að undir engum kringumstæðum sé það réttlætanlegt að nýta sér sakleysi barna til þess að misnota þau.


Tengdar fréttir

Barnasafn fjarlægir muni í eigu Michael Jackson

The Children‘s Museum of Indianapolis í Indiana-fylki hefur ákveðið að taka þrjá muni úr sýningu safnsins í kjölfar útgáfu heimildamyndarinnar „Leaving Neverland“.

Streisand um ásakendur Michael Jackson: „Þetta drap þá ekki“

Leik- og söngkonan Barbra Streisand segist alfarið trúa þeim Wade Robson og James Safechuck sem stigu fram í heimildarmynd um Michael Jackson þar sem sökuðu hina látnu poppstjörnu um kynferðislega misnotkun. Hún telur þó að hin meintu brot hafi ekki haft teljandi áhrif á líf Robson og Safechuck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×