Arnþór Ingi Kristinsson verður frá í næstu leikjum KR vegna tognunar sem hann hlaut í leik KR og FH í Mjólkurbikarnum í vikunni.
Arnþór Ingi var borinn af velli á 34. mínútu leiksins en meiðslin eru ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu.
Miðjumaðurinn öflugi staðfesti við Fótbolta.net í dag að ekkert væri slitið í ökklanum heldur væri þetta bara tognun og liti þokkalega út.
Ljóst er að Arnþór verður frá næstu vikur en hann bindur vonir við að snúa aftur í KR-liðið í fyrsta leik eftir landsleikjahléið í byrjun september.
Miðað við það missir Arnþór af leikjum KR gegn Víkingi, KA og ÍA. Hann gæti snúið aftur gegn Val mánudaginn 16. september.
