Enski boltinn

Segja að leikmenn Man. United þurfi að taka á sig 25 prósent launalækkun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba átti tvö sláarskot í gær og var að vonum svekktur í leikslok.
Paul Pogba átti tvö sláarskot í gær og var að vonum svekktur í leikslok. Getty/Chris Brunskill
Manchester United verður ekki með í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en þetta varð endanlega ljóst eftir 1-1 jafntefli á móti Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Það getur verið dýrkeypt fyrir félög að missa af Meistaradeildinni eins og sést á því að hagnaður Arsenal minnkaði um 60 prósent þegar liðið missti af Meistaradeildinni tímabilið 2017-18.

Það má búast við þrengri fjárhagsstöðu hjá Manchester United án Meistaradeildarinnar en liðið spilar í Evrópudeildinni á komandi tímabili.

Daily Mail sagði frá því í apríl að í flestum samningum leikmanna Manchester United er klásúla um að leikmenn þurfa að taka á sig 25 prósent launalækkun komist liðið ekki í Meistaradeildina.

Givemesport fann út hvað launahæstu leikmenn Manchester United missi af miklum peningi vegna slaks árangur liðsins í vetur.



Sem dæmi um það þá fengi Alexis Sanchez ekki lengur 500 þúsund pund í laun á viku heldur aðeins 375 þúsund pund. Hann myndi lækka í launum um 125 þúsund pund á viku sem eru 20 milljónir íslenskra króna. Launin hans yrðu samt sem áður 60 milljónir á viku.

Vikulaun Paul Pogba fara úr 300 þúsund pundum niður í 225 þúsund pund og laun David de Gea fara úr 200 þúsundum pundum á viku niður í 150 þúsund pund á viku.

Pogba fengi því „bara“ 36 milljónir íslenskra króna í laun á viku í stað 48 milljóna en De Gea verður að sætta sig við 24 milljónir í vikulaun í stað 32 milljón.

Báðir þessir leikmenn gæti vissulega farið í sumar en þeir hafa verið mikið orðaðir við stórlið á Spáni. Hvort slík launalækkun eða sú staðreynd að liðið spilar ekki í Meistaradeildinni hafi meiri áhrif þá er ljóst að það er ekki eins spennandi fyrir þá að spila áfram á Old Trafford á næsta tímabili.

Romelu Lukaku og Fred eru líka í hópi fimm launahæstu leikmanna Manchester United. Laun Romelu Lukaku yrðu 187 þúsund pund í stað 250 þúsund punda og Fred fengi 131 þúsund pund í stað 175 þúsund punda.

Samkvæmt Football Leaks þá mun Paul Pogba einnig missa af stórum bónus vegna þess að liðið komst ekki í Meistaradeildina. Pogba hefði annars fengið 1,875 milljón punda bónus eða um 300 milljónir íslenskra króna.

Í frétt Daily Mail kemur fram að Manchester United muni missa af allt að 65 milljónum punda, 10,4 milljörðum íslenskra króna, vegna þess að liðið verður ekki með í Meistaradeildinni 2019-20. Það er mikill peningur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×