Erlent

Bein útsending: Bandaríkin undirbúa mannaðar geimferðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Geimfar þetta á seinna meir að flytja geimfara út í geim, frá Bandaríkjunum í fyrsta sinn í árabil.
Geimfar þetta á seinna meir að flytja geimfara út í geim, frá Bandaríkjunum í fyrsta sinn í árabil. Getty/Joe Raedle

Starfsmenn Boeing, NASA og United Launch Alliance munu í dag reyna að skjóta geimfari til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Það er orðinn reglulegur viðburður en að þessu sinni er Boeing að skjóta Starliner-geimfari fyrirtækisins í fyrsta sinn til geimstöðvarinnar. Geimfar þetta á seinna meir að flytja geimfara út í geim, frá Bandaríkjunum í fyrsta sinn í árabil.

Bandaríkin hafa ekki skotið mönnum út í geim til langs tíma og því hafa allar þjóðir sem að geimstöðinni koma reitt sig á Rússa til að manna stöðina.

Það gæti breyst á næsta ári, ef vel gengur í dag. Samkvæmt NASA áætla veðurfræðingar að 80 prósent líkur séu á því að ekki þurfi að hætta við geimskotið.



Starliner-farið er hannað til þess að tengjast sjálfkrafa við geimstöðina þannig að geimfarar um borð þurfi ekki að gera það sjálfir. Það verður reynt á laugardaginn. Yfirleitt er tenging einn erfiðasti hluti geimferða.

Eftir að geimfararnir um borð í geimstöðinni opna farið munu þeir flytja farminn úr því og kanna svo ástand þess ítarlega. Þann 28. desember er svo áætlað að senda geimfarið aftur til jarðarinnar.

Geimfarinu verður skotið á loft með Atlas V eldflaug frá ULA og er stefnt á að það verði gert klukkan 11:36. Þá er gert ráð fyrir að Starliner nái til geimstöðvarinnar á laugardaginn, eftir um 26 klukkustunda ferðalag. Um borð eru tæp 280 kíló af birgðum og jólagjafir til þeirra sex geimfara sem eru um borð.



Hægt verður að fylgjast með hér í fréttinni þegar nær dregur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×