Erlent

35 létu lífið hryðjuverkaárás í Búrkína Fasó

Sylvía Hall skrifar
Roch March Christian Kaboré, forseti Búrkína Fasó, sagði árásina villimannslega.
Roch March Christian Kaboré, forseti Búrkína Fasó, sagði árásina villimannslega. Vísir/Getty

35 almennir borgarar létu lífið í Búrkína Fasó í dag í einni mannskæðustu hryðjuverkaárás í landinu á síðustu árum. Af þeim 35 sem létust er 31 kona.

Hryðjuverkamenn létu til skarar skríða í morgunsárið þegar þeir óku inn í þorp við herstöð á mótorhjólum. Áttatíu úr hópi þeirra féllu í árásinni en árásin stóð yfir í nokkra klukkutíma.

Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér en hryðjuverk síðustu ár hafa iðulega verið rakin til hreyfinga sem kenna sig við Íslamska ríkið eða Al Kaída og er vitað um hreyfingar á svæðinu sem hafa sterk tengsl við samtökin. Svo mikið mannfall hefur ekki orðið í einni árás undanfarin ár þó árásir hafi verið tíðar á svæðinu.

Fyrr í mánuðinum létust í það minnsta fjórtán manns þegar menn vopnaðir skotvopnum hófu skothríð í kirkju í austurhluta landsins.

Roch March Christian Kaboré, forseti Búrkína Fasó, sagði árásina villimannslega og þakkaði „hetjulegum viðbrögðum“ hermanna landsins. Tveggja sólarhringa þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu og öllu opinberu jólahaldi aflýst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×