Erlent

Hakkari hrellti barn í gegnum öryggismyndavél

Samúel Karl Ólason skrifar
Alyssa að tala við hakkarann.
Alyssa að tala við hakkarann. Skjáskot

Fjórum dögum eftir að móðir hinnar átta ára gömlu Alyssu hafði komið öryggismyndavél fyrir í herbergi hennar, heyrði hún drungalega tónlist úr herbergi sínu. Þegar hún fór þar inn fór maður að tala við hana og sagðist hann vera jólasveinninn.

Hakkari hafði öðlast aðgang að öryggisvél frá fyrirtækinu Ring og notaði hann tækifærið til að hrella stúlkuna og hvatti hana til að rústa herbergi sínu. Fleiri sambærileg atvik hafa gerst vestanhafs á undanförnum vikum og er útlit fyrir að einn hakkari hafi fylgst með fjölskyldu í nokkra daga.

Ashley LeMay hafði keypt myndavélina, sem inniheldur hátalara sem notendur geta talað í gegnum, til að fylgjast með dætrum sínum þegar hún væri á næturvöktum en hún er hjúkrunarfræðingur. Héraðsmiðillinn WMC5 ræddi við Ashley og fékk upptöku af atvikinu.

CNN segir minnst þrjú sambærileg atvik hafa gerst á undanfarinni viku. Fólk hafi verið áreitt á heimilum sínum af aðilum sem voru að fylgjast með þeim í gegnum netið. Faðir í Nebraska varð var við að dóttir hans var að tala við einhvern í gegnum myndavél sem var í eldhúsi þeirra. Þá vaknaði kona í Atlanta við að maður sem sagðist vera að horfa á hana sagði henni að vakna.

Í öðru tilfelli hreytti hakkari rasískum ummælum í par af tveimur kynþáttum. Sá sagði hluti sem gáfu til kynna að hann hefði fylgst með þeim í einhverja daga.

„Traust viðskiptavina er okkur mikilvægt og við tökum öryggi tækja okkar alvarlega,“ sagði í yfirlýsingu frá Ring til CNN.

Forsvarsmenn Ring segja að hakkarar hafi ekki brotið öryggiskerfi myndavélanna á bak aftur né að gögn hafi leikið frá fyrirtækinu. Þess í stað séu notendur að nota gömul lykilorð sem þeir hafi notað áður og hafa mögulega lekið á netið. Einnig hafði fólkið hafi ekki sett upp tveggja skrefa innskráningu, eins og lagt er til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×