Enski boltinn

Ljungberg: Held ég hafi fengið hjartaáfall tvisvar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ljungberg var ekki sáttur með úrslitin á Carrow Road.
Ljungberg var ekki sáttur með úrslitin á Carrow Road. vísir/getty
Freddie Ljungberg stýrði Arsenal í fyrsta sinn þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Norwich City á Carrow Road í dag. Ljungberg tók við Arsenal af Unai Emery sem var látinn taka pokann sinn á föstudaginn.

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og þannig vil ég spila fótbolta,“ sagði Ljungberg eftir leikinn.

„En við þurfum að verjast skyndisóknum betur. Þeir áttu of auðvelt með að komast í hraðar sóknir.“

Óvíst er hversu lengi Ljungberg stýrir Arsenal, liðinu sem hann lék með í níu ár.

„Ég vil að félaginu gangi vel. Að vinna leiki er það sem þetta snýst allt um. Ég vildi vinna þennan leik en því miður tókst það ekki. En það var margt jákvætt í okkar leik,“ sagði Ljungberg.

Pierre-Emerick Aubameyang skoraði bæði mörk Arsenal í dag. Það fyrra kom úr vítaspyrnu sem taka þurfti tvisvar. Tim Krul varði fyrri spyrnu Aubameyangs en hana þurfti að endurtaka því varnarmaður Norwich var kominn inn í vítateiginn. Aubameyang skoraði svo úr seinna vítinu og jafnaði í 1-1.

„Ég held að ég hafi fengið hjartaáfall tvisvar,“ sagði Ljungberg léttur er hann var spurður út í vítaspyrnurnar.

Arsenal hefur ekki unnið í átta leikjum í röð og vann síðast deildarleik fyrir tæpum tveimur mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×