Enski boltinn

„Þessir strákar eru nærri því að vinna leikina en tapa þeim“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær og Marcus Rashford.
Solskjær og Marcus Rashford. vísir/getty
Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var jákvæður sem fyrr eftir leik United gegn Aston Villa á heimavelli í gær.

Liðin skildu jöfn, 2-2, en United lenti undir snemma leiks er Jack Grealish skoraði. Sjálfsmark Tom Heaton og mark Victor Lindelöf komu United yfir en Tyrone Mings jafnaði metin. Þar við sat.

„Í fyrri hálfleik þá leit þetta út fyrir að við næðum ekki tökum á leiknum. Þegar þú færð á þig mark svona snemma leiks á Old Trafford hefurðu nægan tíma til að koma til baka en mér finnst við ekki ráða vel við það. Við vorum heppnir að vera bara 1-0 undir í hálfleik,“ sagði Norðmaðurinn.







„Síðari hálfleikurinn var góður. Við settum pressu á þá og sköpuðum færi. Þeir fengu eitt gott færi en við sköpuðum svo mörg færi að við áttum að vinna leikinn. Þrátt fyrir það, heilt yfir, þá áttum við það ekki skilið - sérstaklega eftir fyrri hálfleikinn.“

„Við erum ungt lið. Ég vil ekki nota það sem afsökun því þetta er Manchester United og við viljum komast á skrið. Við þurfum þrjá eða fjóra sigurleiki í röð. Það er það sem strákarnir þurfa finnst mér.“

Solskjær segir hins vegar að hann sjái það að strákarnir sínir séu nærri því að vinna jafnteflisleikina en tapa þeim. United hefur gert sex jafntefli í fjórtán leikjum.

„Ég held að það bendi allt til þess að strákarnir séu nærri því að vinna leikina en tapa þeim og að litlu hlutirnir falli með okkur. Auðvitað verðum við að vinna með mismunandi hluti og fyrri hálfleikurinn var ekki nægilega góður,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×