Erlent

Norður-Kórea segir afvopnun hafa verið slegna út af borðinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikil spenna er komin í viðræður ríkjanna þó þessi mynd beri það ekki með sér. Myndin var tekin í heimsókn Trumps á hlutlausa svæðið á milli Norður- og Suður-Kóreu í júní á þessu ári.
Mikil spenna er komin í viðræður ríkjanna þó þessi mynd beri það ekki með sér. Myndin var tekin í heimsókn Trumps á hlutlausa svæðið á milli Norður- og Suður-Kóreu í júní á þessu ári. Getty/Dong-A Ilbo
Kim Song, sendiherra Norður-Kóreu gagnvart Sameinuðu þjóðunum gaf út í dag að kjarnorkuafvopnun ríkisins hafi verið slegin út af samningaborðinu og væri ekki lengur til umræðu. Í ljósi þess væri engin þörf fyrir frekari samningaviðræður við Bandaríkjamenn.

Sendiherrann sagði í yfirlýsingu að óskir Bandaríkjamanna um frekari samningaviðræður um kjarnorkuvopnaeign Norður-Kóreu væru einungis ætlaðar til heimabrúks í innanríkispólitík Bandaríkjastjórnar.

„Við þurfum ekki að eiga langar samningaviðræður við Bandaríkin núna og nú þegar er búið að slá afvopnun út af samningaborðinu,“ sagði sendiherrann í yfirlýsingu sinni sem greint er frá á vef The Guardian.

Sjá einnig: Kim lofar Bandaríkjamönnum jólagjöf

Spenna milli ríkjanna tveggja hefur aukist undanfarið þar sem nú styttist óðfluga í að sá frestur sem Norður-Kóreustjórn gaf Bandaríkjunum til þess að klára viðræður um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans renni út. Sá frestur á að renna út nú í lok árs og hefur einræðisherra Norður-Kóreu sagt að Bandaríkjamenn megi eiga von á jólagjöf, takist ekki að semja fyrir árslok.

Þótt ríkið hafi ekki alltaf staðið við slíkar hótanir telja bæði Suður-Kóreustjórn og Bandaríkin að einræðisstjórninni sé nú alvara. Ekki er útilokað að Norður-Kórea setji aukinn þunga í bæði kjarnorku- og eldflaugatilraunir ef samningar nást ekki.


Tengdar fréttir

Kim lofar Bandaríkjamönnum jólagjöf

Nú styttist óðfluga í að sá frestur sem Norður-Kóreustjórn gaf Bandaríkjunum til þess að klára viðræður um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans renni út. Einræðisherra Norður-Kóreu lofar jólagjöf, náist ekki samkomulag.

Trump segist vera sá eini sem geti hjálpað Kim

Bandaríkin og Suður-Kórea munu fresta heræfingum sem til stóð að halda í von um að það muni bæta líkurnar á samkomulagi við Norður-Kóreu vegna kjarnorkuvopna og eldflauga einræðisríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×