Erlent

Trump segist vera sá eini sem geti hjálpað Kim

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci
Bandaríkin og Suður-Kórea munu fresta heræfingum sem til stóð að halda í von um að það muni bæta líkurnar á samkomulagi við Norður-Kóreu vegna kjarnorkuvopna og eldflauga einræðisríkisins. Yfirvöld Bandaríkjanna þvertaka fyrir að um sé að ræða tilslökun gagnvart Norður-Kóreu.Æfingarnar sem um ræðir bera heitið Combined Flying Training Event og fjölmargir flugmenn flugherja Bandaríkjanna og Suður-Kóreu taka þátt í þeim á ári hverju. Fyrr á þessu ári var búið að taka þá ákvörðun að draga úr umfangi þeirra, vegna andstöðu yfirvalda Norður-Kóreu við æfingarnar, samkvæmt frétt Reuters. Þrátt fyrir það lýstu Norður-Kóreumenn sig áfram andstæða æfingunum og var því hætt við þær í bili.Donald Trump tísti til Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu í dag og hvatti hann til að ná samkomulagi. Trump væri sá eini sem gæti komið Kim á þann stað sem hann þyrfti að vera á og Kim þyrfti að drífa sig að semja.Forsetinn endaði skilaboðin til einræðisherrans á „Sjáumst brátt!“

Tístið snýr einnig að því að á dögunum birtist grein í KCNA, ríkismiðli Norður-Kóreu, þar sem farið var hörðum orðum um Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda.Í þeirri grein segir meðal annars að Biden sé óður hundur, hann líti ekki út eins og maður og honum verði refsað fyrir að vanvirða Kim. Réttast væri að berja hann til dauða með priki.Eins og kemur fram í tístinu hér að ofan segir Trump að Biden sé nú aðeins skárri en „óður hundur“, þó hann sé þreyttur og hægur, eins og Trump kallar hann ítrekað.Síðustu misseri hafa Norður-Kóreumenn ítrekað lýst yfir vanþóknun yfir hægagangi viðræðna og hafa þeir gefið Bandaríkjunum fresti til ársloka til að breyta stöðu sinni. Þá hefur einræðisríkið gert minnst tólf tilraunir með eldflaugar á árinu og hafa margar þeirra reynst vera nýjar eldflaugar. Yfirvöld Norður-Kóreu segjast hafa hafnað beiðni Bandaríkjanna um viðræður í nýliðinni viku.Sjá einnig: Borubrattur Kim Jong-unForsvarsmenn Norður-Kóreu vilja losna undan viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum áður en þeir grípa til nokkurs konar aðgerða vegna framleiðslu þeirra á kjarnorkuvopnum og eldflaugum. Yfirvöld Bandaríkjanna vilja þó hins vegar að einræðisríkið grípi til aðgerða og hætti eldflaugatilraunum áður en viðskiptaþvinganir verða endurskoðaðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.