Erlent

Skutu viðvörunarskotum að fraktskipi frá Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, hefur heitið því að bæta samskipti Kóreuríkjanna en það hefur gengið illa að undanförnu.
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, hefur heitið því að bæta samskipti Kóreuríkjanna en það hefur gengið illa að undanförnu. Vísir/EPA
Sjóher Suður-Kóreu skaut í nótt viðvörunarskotum að fraktskipi frá Norður-Kóreu sem hafði ratað inn í landhelgi ríkisins í Gulahafinu. Eftir að viðvaranir voru gefnar var skotið að skipinu. Nú er talið að áhöfn skipsins hafi siglt því inn í landhelgi Suður-Kóreu vegna veðurs og vélarvandræða.

„Við erum að vinna í því að reka skipið úr landhelgi okkar,“ hefur Yonhap fréttaveitan eftir yfirlýsingu frá herforingjaráði Suður-Kóreu. Enn fremur segir að svo virðist sem að um slys hafi verið að ræða og segja hershöfðingjarnir að engar ógnanir hafi borist úr norðri vegna atviksins.



Yonhap segir óvenjulegt að fraktskipum sé siglt inn í landhelgi Suður-Kóreu, þó áhafnir fiskiskipa geri það reglulega. Þetta er í annað sinn sem skotið er viðvörunarskotum að fraktskipi frá Norður-Kóreu, samkvæmt frétt Reuters, og var það síðast gert í maí 2017.



Í september var viðvörunarskotum þó skotið að annars konar skipi sem var á reki. Að endingu sendi sjóherinn vélstjóra um borð í skipið sem gerðu við vél þess og var því svo siglt til Norður-Kóreu.

Töluverð spenna er þó á svæðinu um þessar mundir eftir að Norður-Kórea gerði stórskotaliðsæfingar þar á laugardaginn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×