Erlent

Evrópu­þingið lýsir yfir „neyðar­á­standi í lofts­lags­málum“

Atli Ísleifsson skrifar
Salur Evrópuþingsins í Strassborg.
Salur Evrópuþingsins í Strassborg. Getty
Meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu samþykkti í morgun yfirlýsingu þar sem „neyðarástandi í loftslagsmálum“ er lýst yfir. Yfirlýsingin er fyrst og fremst táknræn og er ætlað að þrýsta á þjóðir heims að grípa til róttækari aðgerða í loftslagsmálum.

Atkvæðagreiðslan er haldin skömmu fyrir upphaf Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í Madríd á Spáni og stendur dagana 2. til 13. desember.

Reuters segir frá því að alls hafi 429 þingmenn greitt atkvæði með yfirlýsingunni, 225 gegn og sátu nítján hjá. „Þetta snýst ekki um stjórnmál, heldur snýr þetta að sameiginlegri ábyrgð,“ segir franski Evrópuþingmaðurinn Pascal Canfi sem gegnir embætti formanns umhverfisnefndar þingsins.

Sérfræðingar og aðgerðasinnar telja að ekki sé nóg að gert með yfirlýsingum sem þessum. Enn skorti upp á nægilegar aðgerðir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og þannig koma í veg fyrir að meðalhitastig hækki um ekki meira en 1,5 til tvær gráður.

Hin þýska Ursula von der Leyen, sem tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB um mánaðamótin, segir framkvæmdastjórn sína ætla að leggja mikla áherslu á loftslagsmálin.

Áður hafa einstaka lönd, eins og Argentína og Kanada, og borgaryfirvöld, meðal annars í New york og Sydney, samþykkt sambærilegar yfirlýsingar um að neyðarástand ríki í loftslagsmálum.


Tengdar fréttir

Grípa þarf til aðgerða strax

Sameinuðu þjóðirnar segja forsvarsmenn ríkja heimsins hafa sóað of miklum tíma í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×