Enski boltinn

Varaði Mourinho við Lukaku: „Hann er stórt barn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lukaku lék undir stjórn Mourinhos hjá Manchester United og einnig til skamms tíma hjá Chelsea.
Lukaku lék undir stjórn Mourinhos hjá Manchester United og einnig til skamms tíma hjá Chelsea. vísir/getty
Steve Walsh, fyrrverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá Everton, varaði José Mourinho við því að kaupa Romelu Lukaku til Manchester United sumarið 2017. Hann lýsti belgíska landsliðsframherjanum sem „stóru barni.“

Walsh og Mourinho þekkjast vel en þeir störfuðu saman hjá Chelsea á árum áður. Walsh fór síðan til Leicester og átti stóran þátt í Englandsmeistaratitli liðsins 2016. Hann er talinn hafa uppgötvað leikmenn á borð við N'Golo Kanté og Riyad Mahrez.

Walsh var svo ráðinn til Everton þar sem hann starfaði þegar United keypti Lukaku frá félaginu á 75 milljónir punda. Walsh segir að Mourinho hafi hunsað varnaðarorð sín.

„Ég man að ég sagði við Jose: Þú verður að passa þig á Lukaku. Hann er stórt barn,“ sagði Walsh í samtali við The Athletic.

„Hann sagðist geta haft stjórn á honum en ég held það hafi ekki gengið upp.“

Walsh hefur heldur ekki mikið álit á vini Lukaku, Paul Pogba.

„Ég er ekki hrifinn af svona leikmönnum. Þeir hugsa meira um sjálfa sig en liðið. Ég hefði ekki snert þá. Þótt þeir séu góðir leikmenn er ekki þar með sagt að liðið verði gott.“

Manchester United seldi Lukaku til Inter í sumar. Hann hefur blómstrað hjá ítalska liðinu og skorað grimmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×