Erlent

Októ­ber sá næst­ heitasti frá upp­hafi mælinga

Eiður Þór Árnason skrifar
Júlí í sumar mældist jafnframt allra hlýjasti mánuðurinn í sögu mælinga og september jafnaði síðasta hitamet sett fyrir mánuðinn árið 2015.
Júlí í sumar mældist jafnframt allra hlýjasti mánuðurinn í sögu mælinga og september jafnaði síðasta hitamet sett fyrir mánuðinn árið 2015. Getty/Alvaro Espinoza
Síðasti mánuður var næst heitasti októbermánuðurinn á jörðinni frá því að mælingar hófust. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) sem byggir á gögnum sem ná aftur til ársins 1880.

Niðurstaðan er í samræmi við fjölda áður útgefinna skýrslna frá stofnuninni sem sýni stöðuga hlýnun loftslags á jörðinni. Þá hafi síðustu fimm ár mælst þau heitustu frá upphafi mælinga.

NOAA greinir frá því að ef fari sem horfir verði árið 2019 það næst heitasta frá því að mælingar hófust. Meðalhitastig á heimsvísu frá janúarmánuði fram í október á þessu ári hefur einungis einu sinni mælst hærra ef litið er til síðustu 140 ára.

Er óvenjuhlýtt loftslag talið hafa leitt til þess að ísmagn á Norður-Íshafinu hafi aldrei mælst minna í október. Gervitunglamyndir sem ná aftur til ársins 1979 eru sagðar sýna að ísþekjan hafi í síðasta mánuði verið 32,2 prósentum minni en meðaltalið fyrir októbermánuð.

Er það einnig sagt valda áhyggjum að síðasti mánuður hafi verið sá 418. í röð þar sem hitastig á jörðinni mældist yfir meðalhitastigi á 20. öldinni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.