Erlent

Réðst á stjórnmálamann og beit af honum eyrað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi af árásinni. Hér sést árásarmaðurinn slíta sig lausan úr taki öryggisvarða, rétt áður en hann ræðst á Chiu.
Skjáskot úr myndbandi af árásinni. Hér sést árásarmaðurinn slíta sig lausan úr taki öryggisvarða, rétt áður en hann ræðst á Chiu. Skjáskot/twitter
Talið er að lýðræðissinnaður stjórnmálamaður í Hong Kong hafi misst eyra, eða hluta þess, í árás í mótmælum á sjálfsstjórnarsvæðinu í dag. Myndbönd og myndir af árásinni hafa farið í töluverða dreifingu á samfélagsmiðlum. Varað er við einu slíku myndbandi sem finna má í fréttinni.

Maðurinn heitir doktor Andrew Chiu og situr í héraðsstjórn í Hong Kong, samkvæmt fréttum erlendra miðla af málinu. Í myndböndum sem birt hafa verið á samfélagsmiðlum sést hann blóðugur eftir að hafa orðið fyrir árás.

Í frétt Sky-fréttastofunnar segir að maður, vopnaður hnífi, hafi ráðist að Chiu eftir að til slagsmála kom á milli árásarmannsins og fjölskyldu, sem hafði nýlokið við kvöldverð í Cityplaza-verslunarmiðstöðinni í Hong Kong. Átökin brutust út vegna „pólitísks ágreiningsmáls“, að því er segir í frétt Sky.

Ekki er ljóst hvernig Chiu blandaðist í átökin en vitni á vettvangi hafa lýst því hvernig árásarmaðurinn, sem talaði kínverska mállýsku sem ekki er töluð í Hong Kong, reifst hatrammlega við fólk áður en hann beitti hnífnum á a.m.k. tvo menn. Þá sýnir myndband af vettvangi hvernig öryggisverðir reyna að halda aftur af manninum, sem slítur sig lausan, ræðst að Chiu og bítur hann í eyrað. Árásarmaðurinn var síðar handtekinn.

Myndband af árásinni má sjá hér að neðan. Rétt er að vara við efni myndbandsins en í því sést hluti úr eyra Chiu liggja á jörðinni.

Chiu hefur verið fulltrúi Taikoo Shing-svæðisins í héraðsstjórn Hong Kong síðan árið 2007 og er í framboði í kosningunum sem fara fram í sjálfsstjórnarhéraðinu í lok nóvember. Þá er hann stuðningsmaður aukins lýðræðis í Hong Kong.

Á myndböndum á samfélagsmiðlum sést hvernig gert er að sárum Chiu og þá virðist sem hluta eyra hans hafi verið komið fyrir í plastpoka, sem honum er réttur. Joshua Wong, einn aðalforsprakki mótmælendanna í Hong Kong, fordæmdi árásina í færslu á samfélagsmiðlum í gær.

„Vinstra eyra hans var bitið í tvennt á hrottalegan hátt. Ég fordæmi þessar ofbeldisfullu árásir, sem beinast sérstaklega að frambjóðendum.“

Mótmælaalda hefur riðið yfir þetta kínverska sjálfsstjórnarsvæði undanfarna mánuði og hafa mótmælendur meðal annars gagnrýnt meint vaxandi ítök Kommúnistaflokksins á svæðinu og krafist aukins lýðræði. Ekkert lát virðist vera á mótmælunum en kínversk fyrirtæki og stofnanir hafa undanfarna daga verið skotmörk mótmælenda.


Tengdar fréttir

Ekkert lát á mótmælum í Hong Kong

Ekkert lát er á mótmælaöldunni í Hong Kong. Aðgerðarsinnar réðust í nótt að húnæði ríkissjónvarpsins í borginni og ollu þar miklum skemmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×