Erlent

Sjóræningjar rændu níu skipverjum af norsku skipi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flutningaskipið MV Bonita.
Flutningaskipið MV Bonita. Mynd/Ugeland
Sjóræningjar hertóku í gær norskt flutningaskip og námu níu skipverja á brott með sér úti fyrir strönd Afríkuríkisins Benín.  

Skipið heitir MV Bonita og er gert út af norsku skipaútgerðinni Ugland. Útgerðin greinir frá málinu á heimasíðu sinni og segir að sjóræningjarnir hafi ráðist um borð í skipið um níu sjómílur frá höfninni í benínsku borginni Cotonou.

Níu skipverjar, skipstjórinn og átta áhafnarmeðlimir, voru teknir í gíslingu og þeir fluttir á brott. Norska ríkisútvarpið hefur eftir benínskum miðlum að þeir skipverjar sem eftir voru á skipinu hafi tafarlaust tilkynnt yfirvöldum um atvikið.

Bonita lagðist að bryggju í Cotonou síðdegis í gær. Lögregla og strandgæsla rannsaka nú afdrif skipverjanna sem var rænt en talið er að þeir séu allir filippseyskir ríkisborgarar. Fjölskyldum þeirra hefur verið gert viðvart um málið, að því er segir í tilkynningu Ugland. Þá hefur sérstakt neyðarteymi útgerðarinnar verið kallað út vegna málsins.

Bonita er gerð út frá norska bænum Grimstad, þar sem Ugland er með höfuðstöðvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×