Erlent

Ör­laga­rík ljós­mynd úr flug­stjórnar­klefanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Talið er að konan sé að læra að verða flugfreyja við Guilin-háskóla.
Talið er að konan sé að læra að verða flugfreyja við Guilin-háskóla.
Flugmaður kínverska flugfélagsins Air Guilin hefur verið settur í lífstíðarflugbann eftir að mynd af konu, sem tekin var í flugstjórnarklefa flugvélar undir hans stjórn, fór í mikla dreifingu á kínverskum samfélagsmiðlum.

Myndin var tekin í janúar síðastliðnum í flugi Air Gulin á milli kínversku borganna Guilin og Yangzhou, að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir kínverskum miðlum. Myndin vakti þó ekki athygli á samfélagsmiðlum fyrr en í liðinni viku og flugfélagið greip þá fyrst til aðgerða.

Á myndinni sést kona sitja fyrir í flugstjórnarklefanum með matarbakka fyrir framan sig. Eftirfarandi texti var skrifaður við myndina þegar hún birtist: „Þökk sé flugstjóranum. Svo hamingjusöm.“ Talið er að konan sé að læra að verða flugfreyja við Guilin-háskóla.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að flugmaðurinn hafi brotið bæði reglur félagsins og öryggisreglur flugmálayfirvalda með því að hleypa konunni inn í klefann en ekki hefur þó fengist staðfest hvort myndin sé tekin á flugi. Öryggi farþega Air Guilin sé ávallt í fyrirrúmi og óviðeigandi hegðun á borð við þá sem flugmaðurinn sýndi sé aldrei liðin innan félagsins.

Flugmaðurinn fær ekki að fljúga framar vegna brotsins. Öðru starfsfólki í umræddu flugi hefur verið gert að taka leyfi frá störfum á meðan atvikið er rannsakað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×