Erlent

Bandarískir hermenn ekki með leyfi til að vera í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Nú eru um fimm þúsund bandarískir hermenn í Írak. Þeir voru kallaðir heim árið 2011 og sneru aftur árið 2014, þegar vígamenn ISIS lögðu stóran hluta Írak og sömuleiðis Sýrlands undir sig.
Nú eru um fimm þúsund bandarískir hermenn í Írak. Þeir voru kallaðir heim árið 2011 og sneru aftur árið 2014, þegar vígamenn ISIS lögðu stóran hluta Írak og sömuleiðis Sýrlands undir sig. Vísir/AP
Ríkisstjórn Írak segir að bandarískir hermenn sem hafi verið kallaðir frá Sýrlandi hafi ekki leyfi til að halda til í Írak. Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði nýverið að hermennirnir myndu mögulega vera í Írak og halda áfram að berjast gegn Íslamska ríkinu þar. Esper sagði svo í morgun að hann ætti eftir að ræða það til leiðtoga hvernig sú barátta ætti að fara fram.

Hann tók þó fram að hermönnunum væri ekki ætlað að vera í Írak til lengdar.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók þá ákvörðun að kalla hermenn Bandaríkjanna frá Sýrlandi og gerði þar með Tyrkjum kleift að herja á sýrlenska Kúrda, bandamenn Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu. Forsetinn hefur haldið því fram að mennirnir myndu fara til Bandaríkjanna. Nú stendur til að skilja einhverja hermenn eftir í Sýrlandi og er hinum, um þúsund, ætlað að fara til Írak.

Nú eru um fimm þúsund bandarískir hermenn í Írak. Þeir voru kallaðir heim árið 2011 og sneru aftur árið 2014, þegar vígamenn ISIS lögðu stóran hluta Írak og sömuleiðis Sýrlands undir sig.

Eftir að ríkisstjórn Írak lýsti yfir sigri gegn ISIS árið 2017 hafa áköll eftir brottför hermanna Bandaríkjanna orðið sífellt háværari.

Í yfirlýsingu frá herafla Írak segir að her Bandaríkjanna hafi fengið leyfi til að flytja um þúsund hermenn frá Sýrlandi yfir landamærin í norðurhluta Írak svo hægt væri að flytja þá frá landinu. Þeir hefðu ekki fengið leyfi til að halda til í Írak.



Esper mun ræða við forsvarsmenn hers Írak á morgun.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×