Enski boltinn

Welbeck enn á ný á meiðslalistanum | Frá keppni þangað til á næsta ári

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Welbeck er enn og aftur kominn á meiðslalistann.
Welbeck er enn og aftur kominn á meiðslalistann.
Enski framherjinn Danny Welbeck er enn og aftur kominn á meiðslalistann en hann verður frá vegna meiðsla á læri næstu mánuðina. Þetta staðfesti þjálfari Watford, Quique Sánches Florez, á blaðamannafundi í gær. 

Welbeck, sem ólst upp hjá Manchester United, hefur ekki átt sjö dagana sæla og eftir að hafa verið meira og minna á meiðslalistanum hjá Arsenal þá samdi Welbeck við Watford fyrir tímabilið. Hann var í byrjunarliði liðsins í 1-1 jafntefli gegn Tottenham Hotspur á laugardaginn var en Welbeck entist aðeins fjórar mínútur í leiknum áður en lærið gaf sig.

Hinn 28 ára gamli Welbeck hafði byrjað þrjá leiki fyrir Watford til þessa á leiktíðinni en liðið er í tómu tjóni og situr á botni ensku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir níu umferðir en Watford hefur ekki enn unnið leik.

Welbeck tók aðeins þátt í 14 leikjum fyrir Arsenal á síðustu leiktíð. Alls hefur hann leikið 318 leiki á ferlinum og skorað í þeim 70 mörk fyrir Manchester United, Preston North End, Sunderland, Arsenal og Watford. Þá hefur Welbeck leikið 42 landsleiki fyrir enska landsliðið og skorað 16 mörk ásamt því að ahfa leikið með öllum yngri landsliðum Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×