Erlent

Stokkað upp í ríkisstjórn Síle í skugga fjöldamótmæla

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikill mannfjöldi kom saman í miðborg Santiago til að mótmæla stjórnvöldum í gær.
Mikill mannfjöldi kom saman í miðborg Santiago til að mótmæla stjórnvöldum í gær. AP/Rodrigo Abd
Sebastián Piñera, forseti Síle, segist ætla að stokka upp í ríkisstjórn sinni til að reyna að kveða niður fjöldamótmæli sem hafa geisað í landinu undanfarna viku. Áætlað er að um milljón manns hafi tekið þátt í mótmælum í höfuðborginni Santiago í gær.

Í yfirlýsingu við fréttamenn í forsetahöllinni La Moneda sagði Piñera að hann hafi greint öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar frá því að breytinga sé að vænta til að bregðast við kröfum mótmælenda. Hann sagði þó ekki hverjar breytingarnar yrðu né hvenær þær gengju í gegn.

Reuters-fréttastofan segist hafa heimildir fyrir því að til standi að skipta út að minnsta kosti níu ráðherrum, þar á meðal innanríkis-, varnarmála-, efnahags-, samgöngu- og umhverfisráðherrunum.

Mótmælin í Síle hófust eftir að tilkynnt var um verðhækkanir í neðanjarðarlestarkerfi Santiago. Þau þróuðust út í óeirðir sem leiddu til dauða að minnsta kosti sautján manns og mikils eignatjóns. Talið er að um 7.000 manns hafi verið handteknir.

Til að lægja öldurnar lofaði Piñera að hækka lágmarkslaun og lífeyri, hætta við verðhækkanir í almenningssamgöngum og ráðast í umbætur á heilbrigðiskerfi landsins í vikunni. Viðbrögð yfirvalda við mótmælunum hafa hins vegar sætt harðri gagnrýni, ekki síst stríðs sem Piñera lýsti yfir á hendur þeirra sem hann kallaðir „skemmdarvarga“. Fól hann hernum að gæta öryggi víða um landið. Útgöngubann hefur verið í gildi í Santiago á hverri nóttu í vikunni.

Gagnrýnendur forsetans segja að aðfarir hans minni á einræðisstjórn Augusto Pinochet, herforingja. Piñera sagðist í morgun ætla að aflétta útgöngubanni annað kvöld ef aðstæður leyfðu.

Mótmælin í gær fóru friðsamlega fram. Áætlað er að um milljón manns hafi safnast saman í höfuðborginni, blásið í flautur, barið í potta og pönnur og krafist breytinga, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Við heyrðum öll skilaboðin. Við höfum öll breyst,“ tísti forsetinn um mótmælin í gær.


Tengdar fréttir

Mannfall í Santiago

Að minnsta kosti 11 einstaklingar hafa látið lífið í óöldinni sem hefur geisað í Santiago, höfuðborg Chile, undanfarna daga

Maður finnur að fólk er virkilega óttaslegið

Fordæmalausar óeirðir hafa staðið yfir í Santiago, höfuðborg Chile. Harpa Elín Haraldsdóttir hefur verið búsett í borginni í rúman áratug og segist upplifa þá einkennilegu tilfinningu að borgin hennar hafi breyst á einni nóttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×