Erlent

Sílesk kona á Íslandi segir yfirstéttina hafa hertekið stjórnmálin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Alondra Silva segir sársaukafullt að fylgjast með atburðarásinni.
Alondra Silva segir sársaukafullt að fylgjast með atburðarásinni. Vísir/Friðrik

Sílemenn hafa mótmælt stjórnvöldum undanfarna daga og var tilkynning um hækkun fargjalda í neðanjarðarlestarkerfi höfuðborgarinnar Santiago kornið sem fyllti mælinn. Hætt hefur verið við verðhækkunina en áfram er ójöfnuði í landinu mótmælt.

Alondra Silva, sílesk kona búsett á Íslandi, segir almenna borgara orðna þreytta á ofríki yfirvalda og misskiptingu í samfélaginu. „Jafnvel þótt við búum ekki lengur við einræði líður manni eins og yfirstéttin hafi hertekið stjórnmálin síðan þá.“

Mótmælendur hafa gert áhlaup á verslanir og í nótt fórust fimm eftir að kveikt var í fataverksmiðju í Santiago. Alondra segist ekki hlynnt því ofbeldi sem hefur verið beitt. Segist þó hafa skilning á reiði mótmælenda. Erfitt sé að fylgjast með atburðunum. „Það er sársaukafullt. Ég hef verið miður mín síðan þetta hófst.“

Hún segir yngri kynslóðina meðvitaða um möguleika sína á því að mótmæla, öfugt við eldri kynslóðir sem áttu hættu á því að vera myrt fyrir mótmæli gegn einræðisherranum Pinochet.

„Ég held að ástandið muni ekki batna ef hersveitir verða sendar út á göturnar líkt og í tíð einræðisstjórnarinnar. Ég get séð fyrir mér að það yrði sársaukafullt fyrir foreldra mína. Þeirra kynslóð er enn í sárum. Og nú er eins og við höfum farið aftur í tímann, fjörutíu ár.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.