Erlent

Mannfall í Santiago

Björn Þorfinnsson skrifar
Öll spjót standa á Sebastian Piñera, forseta Chile
Öll spjót standa á Sebastian Piñera, forseta Chile Getty/Agencia Makro
Að minnsta kosti 11 einstaklingar hafa látið lífið í óöldinni sem hefur geisað í Santiago, höfuðborg Chile, undanfarna daga. Flest dauðsföllin hafa átt sér stað þegar fólk hefur freistast til að hnupla vörum úr brennandi stórmörkuðum borgarinnar.

Almenningur í landinu er óttasleginn yfir hinum stjórnlausu óeirðum en í fyrsta skipti í þrjá áratugi þurfti her landsins að láta til sín taka á götum höfuðborgarinnar. Umdeild hækkun á miðaverði í neðanjarðarlestakerfi Santiago var neistinn sem kveikti elda ófriðar meðal almennings en áralöng misskipting auðs og spilling hafði lagt grunninn að vænum bálkesti.

Forseti landsins, Sebastian Piñera, lýsti yfir neyðarástandi í landinu fyrir helgi og dró síðan hina umdeildu miðahækkun til baka. Þær aðgerðir sefuðu ekki reiði mótmælenda. „Við eigum í stríði við öflugan óvin sem virðir ekkert og eirir engu,“ lét forsetinn hafa eftir sér í kjölfarið.

Mótmælendur hafa haldið því á lofti að fallið hafi heldur betur á glansmynd Chile sem fyrirmyndar annarra ríkja Suður-Ameríku. Sú mynd hafi verið byggð á sandi.


Tengdar fréttir

Maður finnur að fólk er virkilega óttaslegið

Fordæmalausar óeirðir hafa staðið yfir í Santiago, höfuðborg Chile. Harpa Elín Haraldsdóttir hefur verið búsett í borginni í rúman áratug og segist upplifa þá einkennilegu tilfinningu að borgin hennar hafi breyst á einni nóttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×