Erlent

Leið­togar Kata­lóna fá þunga fangelsis­dóma

Atli Ísleifsson skrifar
Oriol Junqueras, fyrrverandi varaforseti katalónska þingsins, hlaut þyngsta dóminn eða þrettán ára fangelsi.
Oriol Junqueras, fyrrverandi varaforseti katalónska þingsins, hlaut þyngsta dóminn eða þrettán ára fangelsi. EPA
Hæstiréttur Spánar dæmdi í morgun níu af leiðtogum sjálfstæðishreyfinga Katalóníu í fangelsi fyrir aðgerðir sínar í tengslum við atkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Katalóníu árið 2017 og sjálfstæðisyfirlýsinguna sem fylgdi í kjölfarið. Guardian greinir frá dómunum. 

Níumenningarnir voru sýknaðir af ákærulið sem sneri að því að átt þátt í ofbeldisfullri uppreisn, en voru fundnir sekir um ólöglegan uppreisnaráróður og misnotkun á opinberu fé.

Oriol Junqueras, fyrrverandi varaforseti katalónska þingsins, hlaut þyngsta dóminn eða þrettán ára fangelsi. Þá var honum bönnuð þátttaka í opinberu starfi í þrettán ár.

Raül Romeva, fyrrverandi utanríkisráðherra Katalóníu, hlaut tóf ára dóm og sömuleiðis bannað að sinna opinberu starfi í tólf ár. Jordi Turull, fyrrverandi talsmaður katalónsku stjórnarinnar og atvinnumálaráðherrann Dolors Bassa fengu sömuleiðis tólf ára dóma.

Carme Forcadell, fyrrverandi forseti katalónska þingsins, hlaut ellefu og hálfs árs dóm, líkt og innanríkisráðherrann Joaquim Forn og fyrrverandi ráðherrann Josep Rull. Jordi Cuixart og Jordi Sànchez, tveir leiðtogar grasrótarhreyfinga, hlutu níu ára dóm fyrir uppreisnaráróður.

Þrír leiðtogar aðskilnaðarhreyfingar til viðbótar voru dæmdir til greiðslu sektar og fengu bann við að sinna opinberu starfi.

Réttarhöldin hafa staðið í fjóra mánuði og voru það sjö dómarar sem dæmdi í málinu. Alls voru 422 vitni kölluð til.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.