Erlent

K-popp­stjarnan Sulli fannst látin

Atli Ísleifsson skrifar
Sulli varð 25 ára gömul.
Sulli varð 25 ára gömul. Getty
Suður-kóreska K-poppstjarnan Sulli er látin, 25 ára að aldri. Lögregla í Seúl segir að umboðsmaður Sulli hafi komið að henni látinni á heimili hennar nærri suður-kóresku höfuðborginni.

Lögregla segir að rannsókn standi yfir á hvað hafi dregið hana til dauða, en að unnið sé út frá því að hún hafi svipt sig lífi.

Sulli var með rúmlega fimm milljónir fylgjenda á Instagram og var liðsmaður K-poppsveitarinnar F(x) til ársins 2015, þegar hún sagði skilið við sveitina til að einbeita sér að leiklistarferli sínum.

Sulli var góð vinkona Jonghyun, annarrar K-poppstjörnu, sem svipti sig lífi árið 2017, þá 27 ára gamall.

Í frétt BBC segir að Sulli hafi verið umdeild í heimalandinu og ekki setið á skoðunum sínum. Hún hafi ítrekað þurft að þola mikið umtal og hatur í heimalandinu, sem þykir íhaldssamt á ýmsum sviðum, eftir að myndir birtust af henni brjóstahaldaralausri, en hún var virk í No bra-hreyfingunni, sem berst fyrir frelsi kvenna til að klæðast ekki brjóstahaldara.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Nánari upplýsingar hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.