Erlent

Harry hefur áhyggjur af því að sagan endurtaki sig

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Harry segir erfitt að horfa upp á konu sína verða fórnarlamb sömu afla og Díana.
Harry segir erfitt að horfa upp á konu sína verða fórnarlamb sömu afla og Díana. Samsett mynd/Getty

Meghan Markle hefur kært útgefendur Mail on Sunday fyrir að birta í leyfisleysi handskrifað bréf hennar. Bréfið skrifaði hertogaynjan til föður síns, en samband þeirra er mjög flókið og hafa slúðurblöð í Bretlandi fjallað mikið um það síðustu ár. Harry hertoginn af Sussex segir að hann geti ekki lengur setið hjá á meðan fjölmiðlar birti lygar um Meghan.



Lögfræðifyrirtækið Schillings sér um málið fyrir hertogaynjuna af Sussex. Saka þeir breska blaðið meðal annars um herferð falsfrétta og niðrandi frásagna sem og brot á einkaréttarvörðuefni.



Hertogahjónin ætla að greiða fyrir þetta dómsmál úr eigin vasa. Kemur fram í tilkynningu þeirra að ef þau vinna málið ætla þau að gefa skaðabæturnar til góðgerðasamtaka sem berjast gegn einelti.

Meghan og Harry með soninn Archie.vísir/getty

Í ítarlegri yfirlýsingu frá Bretaprinsinum sem birtist á heimasíðu hjónanna í dag segir meðal annars að umfjöllun fjölmiðla hafi verið „sársaukafull“ og full af lygum. Í tilkynningunni segir Harry að hjónin trúi á frelsi fjölmiðla og sjái þá sem hornstein lýðræðis.



Segir hann að ákveðnir miðlar hafi lagt Meghan í einelti og þessi málsókn hafi verið það eina rétta í stöðunni.



„Minn helsti ótti er að sagan endurtaki sig. Ég hef séð hvað gerist þegar einhver sem ég elska er gerður að verslunarvöru upp að því marki að ekki er lengur komið fram við þá sem raunverulega manneskju. Ég missti móður mína og nú horfi ég á konuna mína verða fórnarlamb sömu sterku afla.“  



Samkvæmt frétt BBC segir talsmaður Mail on Sunday að miðillinn standi við sinn fréttaflutning og muni verjast málinu af hörku.


Tengdar fréttir

Meghan og Harry halda til Afríku með Archie

Hertogahjónin af Sussex, þau Harry Bretaprins og Meghan Markle, koma til Afríku í dag ásamt fjögurra mánaða gömlum syni sínum, Archie, en um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn þeirra hjóna með syninum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×