Íslenski boltinn

Óskar Hrafn tekur við Breiðabliki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson er nýr þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er nýr þjálfari Breiðabliks. Mynd/Blikar.is
Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Það var tilkynnt á vef Blika í morgun en samningur hans við félagið gildir til næstu fjögurra ára.

Óskar Hrafn var síðast þjálfari Gróttu þar sem hann var í tvö ár. Bæði árin kom hann liðin upp um deild, nú síðast í Pepsi Max deild karla eftir að hafa gert sér lítið fyrir og stýrt Gróttu til sigurs í Inkasso-deild karla.

„Ég er þakklátur fyrir að vera treyst til að leiða, jafnöflugt félag og Breiðablik er, næstu árin. Leikmannahópurinn er framúrskarandi, aðstæðurnar fyrsta flokks og ég get ekki beðið eftir að byrja að vinna með öllu því góðu fólki sem kemur að félaginu. Á sama tíma kveð ég Seltjarnarnesið með söknuði, leikmannahóp, stjórn og starfsfólk sem ég hef átt tvö ótrúlega viðburðarrík ár með," var haft eftir Óskari Hrafni á blikar.is.

Óskar Hrafn var sjálfur leikmaður KR um árabil og auk þess sem hann var atvinnumaður í Noregi. Þá lék hann þrívegis með A-landsliði Íslands.

Hann þjálfaði yngri flokka KR og Gróttu áður en hann tók við þjálfun meistaraflokks síðarnefnda félagsins fyrir tveimur árum.

Óskar tekur við starfi þjálfara Breiðabliks af Ágústi Gylfasyni en undir hans stjórn höfnuðu Blikar í öðru sæti Pepsi Max deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×