Erlent

Útilokar ekki afskipti kínverskra stjórnvalda í Hong Kong

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ekkert hefur gengið hjá Carrie Lam, æðsta stjórnanda Hong Kong, og öðrum embættismönnum í Hong Kong að koma á ró í borginni. Á blaðamannafundi í nótt neitaði Lam að svara spurningum um það undir hvaða kringumstæðum hún myndi biðja stjórnvöld á meginlandinu um aðstoð við að kveða niður mótmælin. Hún hafði þó þetta að segja:

„Á þessum tímapunkti lít ég svo á að við ættum að leysa málið sjálf. Sú er einnig afstaða ríkisstjórnarinnar, að Hong Kong eigi að taka á eigin vandamálum. En ef ástandið verður afar slæmt er ekki hægt að útiloka neitt ef við viljum að Hong Kong eigi sér nokkra von.“

NBA í veseni

Umræðan um Hong Kong hefur náð langt út fyrir borgina. Forstjóri NBA-liðsins Houston Rocket baðst afsökunar í nótt á því að hafa lýst yfir stuðningi við mótmælendur. Stuðningsyfirlýsingin vakti hörð viðbrögð í Kína. 

Kínverska utanríkisráðuneytið tók í dag þá ákvörðun að ríkissjónvarpið myndi ekki sýna æfingaleiki liða sem fara fram í vikunni.

„Afstaða Kína er afar skýr og ég legg til að þið fylgist með því sem kínverska þjóðin er að segja um málið,“ sagði Geng Shuang, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytis Kína.

Adam Silver, forstjóri NBA-deildarinnar, sagðist vonsvikinn með ákvörðunina. „En ef þetta eru afleiðingar þess að standa vörð um okkar gildi teljum við enn mikilvægt að halda í þessi gildi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×