Erlent

Forsetaframbjóðandinn Karoui látinn laus

Andri Eysteinsson skrifar
Karoui fagnar því að vera laus úr fangelsi í hópi stuðningsmanna sinna.
Karoui fagnar því að vera laus úr fangelsi í hópi stuðningsmanna sinna. Getty/Anadolu

Dómstóll í Norður-Afríkuríkinu Túnis fyrirskipaði í dag að forsetaframbjóðandinn Nabil Karoui skyldi leystur úr haldi, fjórum dögum áður en önnur umferð forsetakosninganna í landinu fara fram. BBC greinir frá.

Karoui var handtekinn í síðasta mánuði, grunaður um peningaþvætti og skattsvik. Þrátt fyrir að sitja inni á meðan að fyrsta umferð kosninganna fór fram var hann vinsæll á meðal kjósenda og hafnaði hann í öðru sæti í fyrstu umferð.

Önnur umferð kosninganna, sem eru aðrar forsetakosningarnar frá því að forsetanum Ben Ali var steypt af stóli í arabíska vorinu í 2011, fer fram á sunnudaginn. Þar mun Karoui fara gegn lagaprófessornum Kais Saied.

Kærurnar á hendur Karoui hafa þó ekki verið felldar niður. Talið er líklegt að ef Karoui lýtur í lægra haldi á sunnudag muni hann kæra niðurstöður kosninganna á grundvelli þess að kosningabaráttan hafi ekki verið sanngjörn.

Kjörtímabil forseta Túnis er fimm ár og stýrir hann varnar-, utanríkis- og þjóðaröryggismálastefnum landsins. Fyrrverandi forseti Túnis var Beji Caid Essebsi sem lést 92 ára gamall 25.júlí síðastliðinn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.