Erlent

Forsetaframbjóðandinn Karoui látinn laus

Andri Eysteinsson skrifar
Karoui fagnar því að vera laus úr fangelsi í hópi stuðningsmanna sinna.
Karoui fagnar því að vera laus úr fangelsi í hópi stuðningsmanna sinna. Getty/Anadolu
Dómstóll í Norður-Afríkuríkinu Túnis fyrirskipaði í dag að forsetaframbjóðandinn Nabil Karoui skyldi leystur úr haldi, fjórum dögum áður en önnur umferð forsetakosninganna í landinu fara fram. BBC greinir frá.

Karoui var handtekinn í síðasta mánuði, grunaður um peningaþvætti og skattsvik. Þrátt fyrir að sitja inni á meðan að fyrsta umferð kosninganna fór fram var hann vinsæll á meðal kjósenda og hafnaði hann í öðru sæti í fyrstu umferð.

Önnur umferð kosninganna, sem eru aðrar forsetakosningarnar frá því að forsetanum Ben Ali var steypt af stóli í arabíska vorinu í 2011, fer fram á sunnudaginn. Þar mun Karoui fara gegn lagaprófessornum Kais Saied.

Kærurnar á hendur Karoui hafa þó ekki verið felldar niður. Talið er líklegt að ef Karoui lýtur í lægra haldi á sunnudag muni hann kæra niðurstöður kosninganna á grundvelli þess að kosningabaráttan hafi ekki verið sanngjörn.

Kjörtímabil forseta Túnis er fimm ár og stýrir hann varnar-, utanríkis- og þjóðaröryggismálastefnum landsins. Fyrrverandi forseti Túnis var Beji Caid Essebsi sem lést 92 ára gamall 25.júlí síðastliðinn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.