Erlent

Rúmlega tvö þúsund erlendir læknar starfa í Danmörku

Davíð Stefánsson skrifar
Samkvæmt reglum þurfa læknar í Danmörku að kunna dönsku og þekkja dönsk læknalög.
Samkvæmt reglum þurfa læknar í Danmörku að kunna dönsku og þekkja dönsk læknalög. Nordicphotos/Getty
Samkvæmt Hagstofu Danmerkur (DST) hefur orðið veruleg fjölgun á læknum sem eru lærðir erlendis. Alls störfuðu 2.100 læknar sem höfðu fengið þjálfun erlendis á dönskum sjúkrahúsum og sem heimilislæknar árið 2017. Það er fjölgun um 300 lækna, eða 19 prósent, frá árinu 2010.

Andreas Rudkjøbing, formaður danska læknafélagsins, sagði að þetta sýndi að ekki hefði verið unnt að koma til móts við þarfir danska heilbrigðiskerfisins með ráðningum á læknum þjálfuðum í Danmörku. Því hafi þurft að fylla laus störf með læknum menntuðum erlendis.

Samkvæmt greiningu DST voru 18 prósent sjúkrahúslækna og heimilislækna í dreifðari byggðum erlendir ríkisborgarar. Á landsvísu var hlutfallið 9 prósent. Af læknum menntuðum erlendis eru flestir þýskir ríkisborgarar (247 talsins), síðan pólskir (219), þá Írakar (163), Litháar (156) og Rússar (109). Þá eru einnig margir læknar frá Afganistan, Íran, Ungverjalandi, Rúmeníu og Noregi.

Rudkjøbing segir gæði læknisþjónustunnar og öryggi sjúklinga vera lykilatriði í þessu samhengi, en ekki hlutfallið sem slíkt.

Samkvæmt gildandi reglum er þess krafist af læknum þjálfuðum utan Norðurlanda og Evrópusambandsins að þeir ljúki námskeiðum til að þeir geti starfað sem læknar í Danmörku. Þar á meðal er dönskupróf, próf í læknisfræðilegri þekkingu og skilningi á dönskum læknalögum. Í viðtali við Jyllands-Posten segir Rudkjøbing að hann sé fylgjandi því að krafa um að standast dönskupróf nái einnig til lækna frá Evrópusambandsríkjum.

Undir það hafa fulltrúar ýmissa stjórnmálaflokkar tekið, svo sem Sósíaldemókrata, Danska þjóðarflokksins og Rauðgræna bandalagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×