Erlent

Sakaður um að drepa föður sinn á villi­svína­veiðum

Atli Ísleifsson skrifar
Feðgarnir voru á villisvínaveiðum í þjóðgarði.
Feðgarnir voru á villisvínaveiðum í þjóðgarði. Getty
Lögregla á Ítalíu hefur sakað karlmann um manndráp af gáleyfi eftir að hann skaut og drap föður sinn á villisvínaveiðum.

Í frétt BBC segir að feðgarnir hafi verið á ferð í þéttu skóglendi nálægt bænum Postiglione í Salerno-héraði í suðurhluta landsins á sunnudag þegar atvikið átti sér stað.

Sonurinn, sem er 34 ára, á að hafa skotið úr riffli sínum þegar hann sá skugga og greinar á hreyfingu. Hafnaði kúlan neðarlega í kvið föðurins. Sonurinn kallaði þá til björgunarlið og reyndi að bjarga lífi föður síns, hins 55 ára Martino Gaudioso, en allt kom fyrir ekki.

Ítalskir fjölmiðlar segja feðgana hafa verið á veiðum í þjóðgarði þar sem veiðar eru bannaðar. Voru rifflar þeirra gerði upptækir.

Þetta er ekki eina sambærilega dauðsfallið á Ítalíu á síðustu árum. Í október á síðasta ári hvatti umhverfisráðherra landsins, Sergio Costa, til þess að bannað yrði að stunda skotveiðar á sunnudögum.

Gerði ráðherrann það í kjölfar þess að átján ára piltur var skotinn til bana á veiðum nærri frönsku landamærunum. Þá létust einnig 56 ára og 20 ára karlmenn í svipuðum slysum sama mánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×