Innlent

Forsetinn floginn til að treysta vinaböndin við Grænlendinga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veifar í kveðjuskyni um leið og hann gengur um borð í flugvél Air Iceland á Reykjavíkurflugvelli í dag í fylgd flugstjórans, Ólafs Georgssonar.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veifar í kveðjuskyni um leið og hann gengur um borð í flugvél Air Iceland á Reykjavíkurflugvelli í dag í fylgd flugstjórans, Ólafs Georgssonar. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Forsetahjónin héldu í dag í þriggja daga heimsókn til Grænlands í boði Kims Kielsen forsætisráðherra. Þau heimsækja meðal annars þjóðþing Grænlendinga og kynna sér menningar- og atvinnulíf þessarar næstu nágrannaþjóðar Íslendinga. Myndir frá brottför voru sýndar í fréttum Stöðvar 2. 

Flogið var með áætlunarflugi frá Reykjavíkurflugvelli upp úr hádegi. Þetta er í raun „opinber" heimsókn en má ekki heita svo þar sem Grænland er ekki sjálfstætt ríki og kallast því „formleg" heimsókn. 

Fyrir brottför gáfu forsetahjónin sér tíma í stutt spjall. Forsetinn segir gott að heimsækja góða granna og gaman að fylgjast með framtíðinni á Grænlandi. 

„Það er bjart framundan á Grænlandi, ef vel er á málum haldið. Miklir möguleikar á sviði útvegs, ferðaþjónustu, samgangna, - miklar framkvæmdir framundan, þannig gaman að fylgjast með þessu, og treysta enn frekar þau vinabönd sem eru milli Íslendinga og Grænlendinga,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Forsetahjónin í viðtali við Stöð 2 fyrir brottför frá Reykjavíkurflugvelli.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Sérstök dagskrá er jafnframt skipulögð fyrir forsetafrúna, Elizu Reid. 

„Já, ég verð með Guðna, - fer mikið. Svo ætla ég líka að hitta fólk frá UNICEF þar því ég er verndari hér fyrir Sameinuðu þjóðafélag hér á Íslandi, fannst þetta mjög mikilvægt,“ sagði Eliza Reid. 

Framundan var þriggja stunda flug til höfuðstaðarins Nuuk. Flugstjórinn Ólafur Georgsson tók á móti þeim við landganginn og bauð þeim að ganga um borð um leið og forsetabílstjórinn kvaddi. 

Auk funda og hátíðarkvöldverða með ráðamönnum Grænlands eru á dagskránni meðal annars heimsóknir í þjóðþingið í Nuuk, þjóðminjasafnið, háskólann en einnig í miðstöð loftslagsrannsókna, Kofoeds skólann og Royal Arctic Line-skipafélagið. Heimsókninni lýkur á miðvikudagskvöld. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Össur ferðast með utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór og Össur munu heimsækja ýmis fyrirtæki og sveitarfélög í suðurhluta Grænlands en þó nokkuð er um íslenskar fjárfestingar í þessum hluta landsins.

Forsetahjónin komin í heimsókn til Færeyja

Íslendingar njóta þess að eiga bestu granna í heimi, verða skilaboð forseta Íslands til Færeyinga en Guðni Th. Jóhannesson, og frú Eliza Reed, héldu í dag í fimm daga heimsókn til Færeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×