Siglingamál Grænlands eru enn með nokkrum nýlendubrag því nánast allir vöruflutningar fara um Álaborg í Danmörku, samkvæmt sérstökum samningum sem eiga sér langa forsögu. Þessa tengingu vilja Grænlendingar rjúfa til að skapa sér fjölbreyttari tækifæri.
Það gera þeir nú með tvennum hætti, annarsvegar með samstarfssamningi við Eimskip, sem skipafélag landsstjórnar Grænlands, Royal Arctic Line gerir, og hins vegar með því að gera nýja gámahöfn í Nuuk. Með þessum aðgerðum vonast Grænlendingar til að milli 50 og 100 störf skapist í Nuuk við það að margvísleg starfsemi á Norður-Jótlandi flytjist heim til Grænlands.
„Sú starfsemi sem var í Álaborg flyst nú til Nuuk, það er vöruflutningar til og frá Grænlandi, og það skapar tækifæri hvað varðar meðhöndlun á innfluttum vörum og einnig á að flytja út fiskafurðir. Það þýðir að Grænlendingar geta afhent vöruna beint til neytenda og eflt þannig ímynd sína. Í því er líka fólgið sjálfstæði,” segir Verner Hemmeken.

„Þetta er gott dæmi um hvernig vesturnorræn ríki geta unnið saman og nýtt sameiginlegt flutningskerfi sem er öllum til hagsbóta. Samstarf okkar við Eimskip á eftir að gagnast Færeyingum, Íslendingum og Grænlendingum í mörg ár, hvað flutninga snertir,” segir Verner.
„Vesturnorrænt samstarf er öllum til hagsbóta og það er svolítið sérstakt að í svona afskekktum heimshluta getum við tekið þátt í svona samstarfi sem gagnast öllum.”

„Já, það vonum við. Ekki spurning. Þetta styrkir einnig samstöðuna á milli Íslands og Grænlands. Í dag eru mikil tækifæri og þeim mun fjölga enn meira. Með vikulegum siglingum til og frá Íslandi opnast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að eiga viðskipti í Grænlandi miðað við áður þegar þau voru bundnari af viðskiptum við Dani,” segir forstjóri grænlenska skipafélagsins.
